fimmtudagur, ágúst 05, 2010

ekki er sopið kálið....

.... þó í ausuna sé látið


Það viðrar vel í Danmörku.
Og börnin mín mætt á svæðið, yndisleg að vanda. Herinn því fullmannaður og ekkert til fyrirstöðu.

Þann fyrsta virka dag eftir komu mína hingað, stormuðum við Gunnar, ásamt fríðu föruneyti uppá "Odense Kommune". Erindið var jú að skrá sig inní landið, fá kennitölu og komast inn í sjúkratryggingakerfið o.s.frv. Eftir gríðarlega langa bið og miklar spekúlasjónir kom röðin að okkur, hjá alveg hreint yndislegri konu, sem vildi allt fyrir okkur gera. Þó var ekki margt sem hún gat gert. Það vantaði nefnilega fæðingarvottorð barnanna, vegabréf barnanna sem og börnin sjálf til þess að hægt væri að koma þeim inní kerfið svo að við gætum sótt um skólagöngu fyrir þau. Og þar með var ég strand í bili. Mér fannst óþægileg tilhugsun að skrá mitt lögheimili frá lögheimili barnanna, var ekki viss hvort ég mætti það, út frá sjónarmiði forsjár og forræðis þeirra, kunni ekki lögin varðandi þetta. En þar sem ég varð að skrá mig inní landið til að halda atvinnuleysisbótunum ákvað ég að hringja til Íslands og leita álits lögfræðings. Eftir heilmikla bið fékk ég grænt ljós á þessa skráningu og þar með orðin lögleg í Danmörku. Eftir stóð að útvega fæðingarvottorð krakkana og bíða þeirra með að skrá þau.
Þetta var semsagt á þriðjudaginn fyrir verslunarmannahelgi. Daginn eftir hringdi ég heim til Íslands og náði sambandi við Þjóðskrá. Vildi panta vottorð og biðja systur mína um að taka þau en hún átti leið um höfuðborgina þann dag. En ekki gekk það.
"Þú þarft að borga þau fyrirfram, annars eru þau ekki búin til og það tekur 5 virka daga að útbúa svona vottorð"
Ég hafði ekki 5 virka daga. Þurfti að koma þessum vottorðum með Júlíu í flug en Inga mín fór og borgaði heilar 3.600,- krónur til að koma þessu af stað og hafði það í gegn að þetta yrði tilbúið í tæka tíð. Sendi svo tengdadóttur sína í fyrradag að sækja pappírana. En viti menn! Hún var aftur rukkuð fyrir þessa pappíra, sem áttu ekki að eignast tilvist nema gegn greiðslu fyrirfram! Hún borgaði því aftur og nú höfðu þessir pappírar kostað heilar 7200 kr.! Síðast þegar ég vissi ætlaði hún með báðar kvittanirnar uppá Þjóðskrá til að fá endurgreitt.
Börnin komu í gærkvöldi og með þeim þessir orkandýru pappírar... og hvað svo? Jú... fæðingarvottorð Júlíu var vitlaust. Hún er jú Ragnars dóttir á vottorðinu en faðir er skráður Björn Emil Jónsson. Ef mikla umhugsun ákváðum við Heiða að láta þetta fara svona og leiðrétta um leið og ég gæti, nýjar kennitölur yrði ég að fá fyrir krakkana þar sem skólinn byrjar næsta mánudag. Þannig að aftur var haldið á Odense Kommune. Með endalausan pappírsbunka, vegabréf og börnin 3 sem málið snérist um. Og Guð minn góður. Konan sem við lentum á var eldri en allt sem gamalt er. Ef ég má gerast svo dómhörð og vitna í Stjána frænda myndi hann hafa komist svo að orði, að þessa konu hefði hreinlega gleymst að jarða! Og byrjaði á því að biðja um vottorð um hjúskaparstöðu sem ég hafði verið svo forsjál að panta með hinum vottorðunum. En þá fyrst versnaði í því. Á pappírunum stóð að ég væri fráskilin en í kerfinu hjá þeim hafði ég sagst vera ógift! Og þetta náttúrlega gekk ekki. Þannig að nú vantaði giftingarvottorð og væntanlega skilnaðarvottorð og hvorugt var ég með. "Hvaða máli skiptir þetta eiginlega" spurði hún Heiða mín...
"jú annað hvort er konan fráskilin eða ógift!"
"Já en hvað máli skiptir þetta? Hún gifti sig á Íslandi, skildi á Íslandi, hvoru tveggja er yfirstaðið, skiptir þetta einhverju máli"
"sko í kerfinu okkar stendur að hún sé ógift sem er eins og að hún hafi aldrei gift sig."
"og?????" spurði Heiða mín þessa mjög svo háöldruðu kvensnift.
"Hún er fráskilin... ekki ógift."
Við vinkonurnar hárreyttum okkur. Fengum hana samt loks eftir mikið þref að skrá börnin með því skilyrði að vottorðið kæmi seinna. Þar með fóru hjólin að snúast ef hægt er að komast svo að orði. Konan notaði sömu tækni á lyklaborðið og fólk notaði á tímum elstu ritvéla. Og helst vildi hún að við kæmum í næstu viku að sækja kennitölurnar. En við heimtuðum að bíða og klukkutíma síðar yfirgaf fráskilda, ógifta, 3ja barna móðirin ásamt hárreyttu vinkonunni og börnunum þremur, Odense Kommune! Með danskar kennitölur barnanna í farteskinu. Ekkert lítill ágóði þar. En þar sem Júlía er ranglega feðruð þarf ég því nýtt fæðingarvottorð og þar sem einn faðirinn hefur því bæst í hópinn þarf ég því tvö giftingarvottorð og tvö skilnaðarvottorð... Nema að ég segi bara að mín hjónabönd og mínir skilnaðir komi dönsku kommúnunni hreinlega ekkert við!!!


Svo mörg voru þau orð....

2 Comments:

Blogger Heiðagella said...

já vá !!! nú hef ég ekkert sérstaklega margt á móti gömlu fólkien djísús þetta var leiðinlegasta gamla kona sem ég hef á ævi minni hitt.

8:25 f.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

HAHAHAHA....hrein snilld:)

kv. íris árný

9:04 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home