fimmtudagur, janúar 22, 2009

................. Vér mótmælum allir.........

Nú get ég ekki lengur orða bundist........

Að vísu er mér málið skylt en ............

Ég veit ekki hvað er að koma yfir Ísland, ég veit ekki hvar ég stend sem íslendingur, í dag veit ég ekki hvort ég vil einu sinni vera íslendingur.

Það er nefnilega þetta með mótmælin

Það lítur útfyrir að fólk skiptist soldið í 2 hópa, með mótmælendum og á móti. Og þeir sem eru á móti vilja “friðsamleg mótmæli” ekki þessi læti. Þetta er yfirvegað fólk með kaffilögg á thermalbrúsa og mola í plastbolla, andi keflavíkurganganna svífur yfir vötnum og eitt og eitt hnitmiðað slagorð er látið fjúka með reglulegu millibili.

Sko, svoleiðis friðsamleg mótmæli skila engum árangri!

Það hlustar enginn á svona “friðsamleg mótmæli”. Það er öllum sama! Mótmæli víðast hvar í heiminum, þar sem fólk hefur náð einhverju fram, hafa oftast kostað blóð svita og tár, t.d. eins og mótmælin í Kristjaníu og í Frakklandi. Hasarinn undanfarið er mun líklegri til árangurs en keflavíkurgöngurnar forðum daga og þá spyr maður sig, hvaða árangri er verið að ná fram??

Stjórnarslitum?

Til hvers? Um hvað og hvern á maður að kjósa?

Sama fólkið í aðra stóla, sömu spilltu gildin og sömu tilsvörin? “Ekki mér að kenna” o.s.frv.
Ef stjórnin fellur hvað tekur þá við og eru einhverjir í stakkt búnir til að taka við þessu? Ég er bara ekki að sjá hverjir það eiga að vera.

Það er nefnilega ekki nóg að góla og garga og vita svo ekki lengra og þannig lítur þetta út fyrir mér. Höfuðlaus her af mótmælendum sem samanstendur að mestu af menntaskólafólki sem hefur engu að tapa, er ekki búið að stofna til skulda sem að heitið getur og krakkar sem eru bara að snapa áflog. Heimta stjórnarslit og svo ekkert meir....!

Og hvað er málið með að mæta með börn í þessi mótmæli?? Eiga börn ekki rétt á því að fá að upplifa bernskuna áhyggjulaust og utan við þras og þvarg fullorðna fólksins.
Hvaða skilaboð erum við að senda börnum og unglingum?

“Gefið skít í lögguna, í orðsins fyllstu merkingu!”

Það er kvartað yfir því að löggan sé að halda uppi aga, bíddu, er það ekki það sem við viljum? Getum við borið virðingu fyrir lögreglu sem lætur skítinn yfir sig ganga stanslaust?? Eða viljum við kannski lögreglu sem enginn virðir?? Hvað er eiginlega í gangi???

Yfirvaldið fór kl 19:00 á næturvakt s.l. þriðjudagskvöld, kl 22:30 í gærkvöldi labbaði hann inn um dyrnar heima eftir 27 tíma vakt.

Hann var s.s. sendur í gærmorgun, strax eftir næturvaktina, beint til Reykjavíkur til að standa vakt niðrá Austurvelli.

Og þar stóð hann og lét rigna yfir sig remúlaðinu og eggjunum, fékk eldglæringar í augun o.s.frv. Hvað hefur HANN gert þessu fólki?

Og þá kem ég að kjarnanum. Mótmælin eru fín. Kveikjum elda, berjum á trumbur og glugga og borð og bekki, en að sprengja í augun á lögreglunni og grýta hana með gangstéttarhellum, hvað hefur hún gert af sér?

Bjössi minn er lagður af stað aftur á Austurvöll, til að standa vaktina aftur i dag, hann er sjálfur að drukkna í ofurvöxtum og öllu þessu sem verið er að tala um.

Þessi mótmæli eiga að snúast um málstað, ekki uppreisn gegn lögreglu sem kemur þessu eiginlega ekkert við. Nema að þeir þurfa bara að vinna vinnuna sína.

Kennararnir hennar Helgu í MH gáfu frí í morgun til að mæta í mótmæli og ætla að mæta sjálfir.

Ástin mín og dóttir mín........., sitt hvoru megin við línuna, það er mjög furðuleg tilhugsun.


Ég viðurkenni að mér finnst vont að vita af þeim þarna og þurfti hreinlega að láta hafa ofanaf fyrir mér í gærkvöldi á meðan ég beið eftir að fá hann heim.........





L


0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home