föstudagur, nóvember 14, 2008

það er þetta með jólin

Það hefur aldrei verið eins skýrt eins og núna hvað jólin virðast vera tengd peningastöðu fólks. Nóvember er hálfnaður og enn bólar ekkert á jólaáróðri. Einstaka búðir hafa laumað jólaskrauti í gluggana þegjandi og hljóðalaust. Engar jólaauglýsingar farnar að birtast og fólk virðist einhvern veginn tækla þetta þannig að á meðan engin minnist á jólin sé hægt að ímynda sér að þau séu bara ekki á leiðinni. Og fólki kvíðir fyrir jólainnkaupum, jólagjafirnar og allt þetta vesen eins og fólk talar um. Ég sem er svo mikið jólabarn pukrast með mína tilhlökkun enda svo sem búin að kaupa allar jólagjafirnar nema 3 sem ég kaupi örugglega ekki fyrir en á síðustu stundu. En alla vega, ég hef mikið verið að hugsa til baka. Fyrstu jólin mín að heiman. Ég var ólétt af Helgu Maríu, bjó í kjallaraholu á Grettisgötunni, vann í bakaríi og Ragnar atvinnulaus. Ég var 18, rúmu ári eldri en Helga mín er í dag. Ótrúlegt. Og ég hlakkaði svo mikið til jólanna. Við áttum ekki krónu, launin mín fóru í leigu og bæturnar hans Ragnars í afborgun af skuldabréfi sem við höfðum tekið til að kaupa okkur bíl. Afgangurinn af peningunum var búinn um 10. hvers mánaðar. Við lifðum á bakaríinu, ég gat skrifað á mig mat og þannig skrimtum við þennan vetur. Ég gerði mér kannski ekki alveg grein fyrir stöðunni fyrr en það var komið að jólagjafapælingum. Og við áttum ekki pening. Ekki einu sinni fyrir mat. Þannig að það var lagt kalt mat á stöðuna og Ragnar tók af skarið og ákvað að það yrðu engar jólagjafir gefnar þessi jól. Ragnar átti soldið sem hann hafði átt sem krakki og það fékk Andri í jólagjöf, Andri eina barnið okkar þessi jól en aðrir fengu ekki neitt. Og ég man hvað mér leið samt svo vel. Desember var yndislegur, þetta árið, veðrið var svo stillt og gott og ég gat nánast alltaf labbað í vinnuna. Og ég man hvað ég var fegin að hafa ákveðið þetta með gjafirnar í staðinn fyrir að herja út yfirdrátt í bankanum til að geta haldið jól eins og ég hefði kannski viljað. Ég lærði helling á þessum tíma, jólin voru friðsöm og falleg hvað sem peningum leið. Ég hef prófað að halda VISA jól og það hefur ekki verið skemmtilegra. Núna fer ég í jólaskap, kaupi gjafir eins og ég hef efni á og stundum verð ég að stilla verðinu heilmikið í hóf en jólagleðin er alltaf eins. Þetta nefnilega snýst ekkert um hvað við getum eða getum ekki keypt, heldur hvernig við viljum að okkur líði og því getur enginn ráðið nema við sjálf. Þess vegna vil að jólin verði sett af stað eins og vant er!

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home