Danmörk - Ísland
Í skjóli þeirra aðstæðna sem sköpuðust heima á Íslandi í fyrra, var tekin sú ákvörðun að halda yfir hafið, nema land á erlendri grundu og mennta sig
Nú er liðið tæpt ár. Námið hefur látið á sér standa, ennþá hefur ekkert hér í Danmörku rekið á mínar fjörur sem mér hefur fundist vert að skoða. Og með vorskipinu frá Íslandi barst boð um að hefja nám við háskólann á Bifröst næsta haust. Mínu ævintýri erlendis er þó ekki þarmeð lokið, heldur tekur það smá útúrdúr með viðkomu á fróninu fagra.
Mér hefur liðið vel hér í Danmörku. En eg er afskaplega mikill íslendingur. Og finn það best hér úti, hvað eyjan mín togar í mig.
Eg hef alltaf talið mig vera nokkurskonar hvergiland. Þá meina eg, að mér hefur aldrei fundist eg tilheyra neinum stað. Eg er jú alin upp í sveit en sem krakki var oft sagt við mig að sveitin mín væri engin sveit, þar væru engar skepnur. Þetta væri meira svona eins og að festast í sumarbústaðaferð. Því bjó ég í sveit en var ekki úr sveit, ef þið skiljið. Síðan flutti eg til Reykjavíkur og svo á Selfoss en var ekki reykvíkingur og ekki selfyssingur. Hér úti í Danmörku fann eg upprunann. Hann er ekki bundinn neinu bæjarfélagi eða hrepp, heldur kannski Íslandi sem heild. Mér finn nú að eg tilheyri fjöllunum heima, mýrinni, íslensku rigningunni og farfuglunum. Hér í danaveldi syngja fuglarnir sama sönginn og eg skil ekki þeirra söng. Eg sakna tjaldsins og spóans og því sem þeir segja mér á hverju vori.
Eg sakna lóunnar sem með harðfylgi syngur inn vorið á hverju ári og gefst aldrei upp, þó að á móti blási ísköld snjókorn í einhvern tíma. Eg sakna þó mest hrafnsins sem vakir yfir mér á húsaþaki á ísköldum vetranóttum jafnt sem björtum sumarnóttum og býður mér góðan dag að morgni með kátlegu krunki. Eg sakna fjallanna og ilmsins af hinum alræmda sinueldi, kyrrðarinnar og stillunnar á fallegu íslensku vorkvöldi.
Þetta allt er minn uppruni. Og meira að segja mýrin með öllu sínu lífi, þegar að grænir sprotarnir stingast upp úr þýfinu og litlu lömbin sprikla um túnin í kring. Íslenskt vor iðar allt af lífi á meðan danskt vor læðist upp að manni og hverfur svo. Danskt vor er nákvæmlega eins og danskt haust. Kalt, blautt og alþakið sölnuðum laufblöðum sem fjúka um í þessu endalausa roki sem ætlar engan endi að taka.
Svo allt í einu, án þess að maður átti sig á, er komið sumar. Þegar maður er enn að bíða eftir vorinu. Öll tún eru orðin iðagræn, trén komin í fullan blóma en hvergi neitt kvikt að sjá, engin lömb, né folöld. Og manni finnst sem maður hafi misst af einhverju. Og þetta er svo ólíkt og framandi því sem maður þekkir. Meira að segja anganin af skítadreifurunum sem dreifa þessum lífræna áburði á öll tún hér í Danmörku er framandi.
Söknuðurinn eftir Íslandinu mínu er ljúfsár og þó eg eigi eftir að nema land seinna meir á erlendri grundu veit eg nú hver eg er og hvaðan eg kom og hvers ber að þakka.
Eg kveð danaveldi í júlí og veit að hér á eg aldrei eftir að búa aftur. Borgarfjörðurinn bíður mín í bili með allri sinni fjallafegurð. Og eg get verið viss um að hrafninn er strax farinn að undirbúa komu mína heim.
3 Comments:
Alltaf gaman að lesa bloggið þitt, darling.
Gangi þér vel <3 kv, Ísrún
Dásamleg lesning elskan. Ég sé alveg ritgerðirnar renna út úr þér og inn í tölvurnar á Bifröst. Alveg sama um hvað þær eiga að vera. Þetta mun veitast þér auðvelt, mun auðveldara en þú heldur. Þín vinkona Guðrún Jóhanns
Skrifa ummæli
<< Home