mánudagur, október 04, 2010

Tíminn liður áfram............

............................. og hann teymir mig á eftir sér
og ekki fæ ég miklu ráðið um það hvert hann fer.....

Það er kominn október. Dagurinn í dag var brúðkaupsdagur okkar Ragnars, fyrir 19 árum síðan. Eins og í fyrra lífi, í draumi, óljóst, í móðu. Síðan þá hefur liðið heil öld, samt er ég rétt að byrja.

Verklegar framkvæmdir í náminu fóru fyrir ofan garð og neðan. Fyrri vikan fór í reisu til Íslands, seinni vikan fór í andlegt tómarúm eftir reisu til Íslands. Það hefur verið algjört átak að koma sér af stað aftur. Hugurinn er hingað og þangað og þó ég hafi aldrei verið í pilsfaldi mömmu minnar finnst mér alveg ferlegt að geta ekki kíkt til hennar núna, seint á kvöldin..."þegar svipirnir fara á stjá". Það eru ótrúlegustu hlutir sem renna í gegnum hugann, það var svo margt sem ég ætlaði að spyrja pabba um, eins og t.d. hvaða áburð ég ætti að nota til að ná mosanum úr garðinum og hvaða smurolíu ég ætti að nota á bílinn. Ég er oft ferlega annars hugar, gleymi hvar bílnum er lagt og veit sjaldnast í hvaða átt ég á að fara, (það er nú reyndar ekkert nýtt), en þetta hlýtur að koma allt saman.

Ég keypti mér bók í flugstöðinni og slátraði henni á einum sólarhring. Arsenikturninn svíkur ekki, alveg hreint snilldarsaga.

Annars hef ég lítið fram að færa, jólin nálgast en þó hafa þau aldrei verið jafn fjær.

Þangað til næst....


0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home