mánudagur, janúar 30, 2012

31. janúar 2012


Á köldum desembermorgni stendur lítil stúlka á efri hæðinni í Kringlunni og horfir í kringum sig. Hún er dúðuð í hlý föt sem mamma hennar er að baksa við að klæða hana úr en það gengur erfiðlega. Stelpan á erfitt með að vera kyrr og hún heldur dauðahaldi í reimarnar á grænni og hvítri loðhúfu sem á greinilega ekki að fá að losna. Mamma hennar lætur því nægja að taka af henni úlpuna og koma henni fyrir í hólfi á kerrunni sem þær eru með.

Um leið notar stúlkan tækifærið. Hún er frá á fæti og tekur stefnuna á rúllustigann sem liggur niður á hæðina fyrir neðan. Það er fjölmargt fólk í Kringlunni þennan morgun, jólatónlistin flæðir um og skreytingarnar heilla lítinn stelpuhnokka sem sér þó ekkert annað þessa stundina en þennan heillandi stiga sem rúllar í hring. Fólk stoppar og horfir en hefur þó ekki rænu á að grípa barnið. „Sjáðu álfinn“ segir lítill drengur sem horfir í forundran á þessa litlu veru. Enda ekki skrýtið. Hún er jú bara 10 mánaða í alltof stórum smekkbuxum og með þessa skondnu húfu með þremur dúskum sem dingla til og frá.

Mamman hefur loksins lokið við að ganga frá kerrunni og snýr sér við til að grípa barnið en grípur í tómt. Og stekkur af stað. Nær henni sem betur fer í tæka tíð en þó má ekki miklu muna. „Jesús minn Helga María“ stynur mamma upp í sjokki yfir því sem hefði getað gerst en stelpan horfir hissa á mömmu sina, setur i brýrnar og segir ákveðin „sjá jólaté“ Jú blessað jólatréð... Og morguninn er tekinn í að rápa um verslunarmiðstöðina í leit að jólatrénu sem hafði verið í auglýsingunni í sjónvarpinu kvöldinu áður og heillað hafði stelpuna svo mikið að hún hafði ekki talað um annað. Hún hvílir sig af og til í kerrunni meðan mamma kaupir eina og eina jólagjöf. Lítill hvítur jólakjóll er keyptur og skór í stíl.

Svo loksins, loksins fær hún augum litið þessa dýrð, jólatréð í fullum skrúða. Þá fyrst rífur hún af sér húfuna. Lokkarnir eru ljósir og hrokknir. „Glóbjart liðast hár um kinn...“ Ljósbláu augun skína í birtunni af trénu og hún verður hugfangin á svipinn. Hún hefur upp raust sína við jólatréð, syngur „Adam átti syni sjö“ aftur og aftur. Fólk stoppar og hlustar. Hún er svo skýr, svo altalandi svona lítil, fer aldrei útaf laginu og syngur svo meira, „pabbi segir pabbi segir“. Ja hérna heyrir mamman hvíslað hér og þar og hún leyfir stelpunni sinni að klára jólalögin sem hún veit að stúlkan kann.

„ Nú búið“ segir sú stutta svo og prílar upp í kerruna. Hún sofnar á leiðinni heim þó stutt sé að fara og þegar mamma hennar tekur hana sofandi upp og leggur hana í rúmið heima veltur lítil jólakúla úr lófanum. Minjagripur um þessa einkennilegu verslunarferð í desember. Jólakúlan er enn til og prýðir jólatré fjölskyldunnar um hver jól en vekur einnig upp löngu liðna minningu um litla stelpu sem stóð í smekkbuxum og söng í Kringlunni.

Árin liðu, hún fór í leikskóla, grunnskóla, menntaskóla. Líka í tónlistarskóla og söngskóla. Hún hætti að ganga í kjólum, var oft með moldina upp að hnjám þar sem náttúran heillaði hana alltaf og hún gat alltaf fundið sér forarpytt að leika sér í þegar hún var lítil.

Einu sinni mislíkaði henni og hún gerði tilraun til að strjúka að heiman en gleymdi svo að fara þegar til átti að taka. Ennþá eru skilaboðin sem hún skrifaði á blað, mömmunni minnistæð: „Eg get ekki búið við þetta lengur og hef ákveðið að strjúka að heiman....“

Hún hefur gert mömmu sína oft á tíðum gráhærða en aldrei lengi og alltaf stolta. Og alltaf er hún jafn heilluð af jóladýrðinni, alltaf jafn hátíðleg þegar jólin ganga í garð.

Í dag eru liðin 20 ár síðan þessi litla stúlka leit heiminn í fyrsta sinn. Barn fætt af barni á Fæðingarheimili Reykjavíkur. Hún hefur mátt þola að vera frumraun móður sinnar í móðurhlutverkinu.

Mörg byrjandamistökin voru gerð og eflaust hefði margt betur mátt fara við uppeldið en hún tók því öllu með bros á vör. Enda er greinlegt að mistökin hafa ekki verið alvarleg og efniviðurinn sérlega efnilegur.

Hún er aftur farin að ganga í kjólum og enn er hún syngjandi.

Það eru forréttindi að eiga heilbrigð börn.

Það eru líka mín forréttindi að eiga akkúrat þessa stelpu.

Því hún er allt sem hægt er að óska sér.






2 Comments:

Anonymous Helena G. said...

Váá, hvað þetta er fallegt hjá þér, Lilja! :) Ég táraðist bara við lesturinn :) Þú ert svo sannarlega rík!

3:34 f.h.  
Anonymous Ása Berglind said...

Til hamingju með frumburðinn Lilja. Yndisleg lesning...

9:15 f.h.  

Skrifa ummæli

<< Home