laugardagur, janúar 21, 2012

Memory lane.......



Eftir þröngri íbúðargötu hlykkjast gangstéttin, hlykkjast í hæðum og lægðum, þráðbein og örmjó. Gatan er í einstefnu og því er bílunum lagt öðru megin en þó hefur einstaka bíll af eintómri þvermóðsku slæðst hinu megin. Sumir þurfa alltaf að vera á rangri hlið í lífinu.

Þegar gengið er upp götuna að miðju, er beygt inn á milli tveggja reisulegra húsa. Örmjór stígur liggur að hrörlegu bakhúsi, sem samt reynir að halda í virðuleikann sem eitt sinn hefur eflaust einkennt þetta hús, enda er þetta með stærri húsum í þessarri götu. Einu sinni málaði gömul kona þetta hús hvítt. Síðan eru liðin mörg ár og sumstaðar er málningin farin að flagna og á öðrum stað er hún upplituð af veðráttu löngu liðinna ára. Göngustígurinn endar við skellóttar steintröppur sem liggja að ljósblárri skellóttri hurð.

Hurðin opnast út. Vitlaust mundu sumir segja. En menn hafa löngum haft skoðanir á því hvort útidyrahurðir eigi að opnast inn ellagar út. Og hvort er inn og hvort er út? Fyrir innan þessa skellóttu hurð kúrir lítill ísskápur í forstofu. Hann er einkar aumingjalegur að sjá, eflaust svangur. Framleiddur á sínum tíma í Austur-Evrópu og þekkir því lítið annað en skort. Þegar gengið er inn um þessa útidyrahurð blasir við hurð upp stiga. Hún er flestum lokuð en á hægri hönd er hurð sem liggur inn í þvottahús. Ef þvottahús skyldi kalla. Þar húka saman nýmóðis þvottavélar tvær, þarna sitja þær með vanþóknunarsvip enda þetta þvottahús, með þykku ryklagi og moldargólfi, þeim klárlega ekki samboðið.

Í forstofunni er það hurðin til vinstri sem allt snýst um. Þangað liggur leiðin, innfyrir þá hurð. Hún er litlaus og traust. Með nýjum ASSA lás sem glampar á og smellir lásnum til baka þegar gljáðum lykli er stungið í skrána.

Hurðin opnast inn að þessu sinni og fyrir innan blasir við eldhús. Á gólfinu er ljósyrjóttur gólfdúkur, sem einhvern tímann hefur verið hvítur en er nú orðin hlandgulur af elli. Undir glugga liggur eldhúsbekkur með neðri skápum. Grænleit borðplata með stórum og smáum rispum. Skáparnir hvítir með silfurhöldum. Við endann á borðplötunni er lítill appelsínugulur bakarofn með tveimur litlum eldavélahellum á .

Á bakvið hurðina er stálvaskur með stórum krana. Þessi vaskur er steyptur í lítinn skáp og fyrir ofan vaskinn er glerskápur með glösum. Þar fyrir innan er bjórglas og á því stendur DUVEL.

Hægra megin við forstofuhurðina, hinu megin við stálvaskin, er hurð inn á salernið. Salernið er lítið. Klósettið er staðsett inní sturtunni svo hægt er að gera marga hluti þar inni í einu.

En það er fleira inní þessu eldhúsi. Við hliðina á salernishurðinni er borðplata sem er kvarthringur. Hún er fest með viðvaningslegum hætti beint á veggina í hornið og við þessa plötu bíða háir barkollar í viðbragðsstöðu, enda aldrei að vita hvenær næstu rassar hlunka sér á kollana.

Þar sem borðplatan endar er hurð, hún snýr beint á móti forstofuhurðinni og opnast inn í eldhúsið sem gerir það að verkum að ef setið er við þetta ámátlega vegg-hringborð þarf sá hinn sami að standa upp og færa sig. Þessi hurð liggur að stofunni, sem er bæði stofa og svefnherbergi í senn. Teppalagt rými, veggir klæddir gulri gervi-viðarklæðningu úr plasti. Mjög ósmekkleg veggklæðning og gefur herberginu annarlegan blæ. Á veggjunum hanga sv/hv listaverk þýskrar konu og eru í hrópandi mótsögn við umhverfi sitt. Upp við vegginn, sem skilur að rýmið og eldhúsið, er tvíbreitt rúm, svartur kassi með svartri dýnu. Á náttborðinu við rúmið er stúfullur öskubakki og hálftómur Winston sígarettupakki. Hinu megin í rýminu er grænn, örmjór hermannabeddi sem einhvern tímann hefur verið keyptur hjá Sölu Varnarliðseigna.

Það er ekki mikið fleira þarna inni. Jú, lítið gamalt skrifborð úr rósavið, með bókahillu í stíl, lætur lítið fyrir sér fara í einu horninu. Ofan á þessu skrifborði er ritvélin. Gömul þýsk ritvél úr seinni heimstyrjöldinni, smíðuð af nasistum. Níðþung en samt svo máttlaus, því borðinn er löngu búinn og enginn leið að finna ritfangasala sem selur stríðsborða í ritvél. Og einhversstaðar bíður lítil dökk viðarvagga á hjólum þess, að umvefja litla telpu sem á svo margt annað og betra skilið en að byrja lífið í þessarri holu.

Þarna til hliðar er líka sjónvarp. 20 tommu Luxor sjónvarp á stálfótum með hjólum. Sv/hv sjónvarp í viðarkassa sem malar endalaust fréttir af auknu atvinnuleysi, ástandinu í Sovétríkjunum (enda Gorbatsjov ný farinn frá völdum), andstöðu landsmanna við EES eða andstöðu við ríkisstjórnina. Enda eru vinstimenn við völd og því sjaldnast friður, hvorki í þeirra eigin herbúðum né annarra.

Hér, í þessarri litlu íbúð, ríkir andi vonleysis og vonbrigða, þó bjartsýnin sé skammt undan. Ekkert heyrist nema gráturinn í barninu sem býr við hliðina og er búið að gráta í mörg ár. Og þegar mykrið skellur á magnast upp allskyns hljóð sem blandast hvæsinu í villiköttunum sem eru hér allstaðar og elda saman grátt silfur í næturhúminu


Hér eru kvíðinn og tilhlökkunin með sitt lögheimili og takast endalaust á í sífelldri togstreytu á meðan silfurskotturnar dansa á gólfunum sinn dans enda hafa þær engu að kvíða.

Eg sný mér við, geng út og loka hurðinni fast á eftir mér. Lít ekki til baka og geng götuna áfram, þar til eg beygi niður hliðargötu og þá tekur við mér Laugarvegurinn með allri sinni gleði og sínu lífi. Eg hverf inní mannfjöldann og er horfin frá þeim undarlega stað þar sem tíminn stóð kyrr og angan brostinna vona lá eins og mara yfir.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home