fimmtudagur, janúar 03, 2008

Mikið skelfing sem.........

............mér leiðist janúar. Janúar er hreinlega leiðinlegasti mánuður ever, eina skíman í þessum mánuði eru afmæli barnanna minna, sú elsta og sá yngsti. Jamm ég byrjaði ballið í janúar og endaði það líka því Björninn minn segir EKKI FLEIRI BÖRN! Við eigum nú eftir að sjá til með það vinurinn! Hins vegar er ég byrjuð að telja niður í næstu jól og mér telst svo til að það séu ca 361 dagar þangað til. Rithöfundurinn kíkti á mig í morgun, ég fékk fúlskeggjaðan lopapeysukoss beint á vangann og hann upplýsti mig um það ófremdarástand sem væri væntanlegt þar sem nú er gengið í garð svokallað hlaupár, en það ku víst vera stórhættulegt. Fornar sagnir herma, skilst mér, að búfénaður gangi af göflunum og börn og gamalmenni umhverfist hreinlega. Og ekki lýgur Rithöfundurinn. Við vorum sammála um að skaupið hafi hvorki verið fugl né fiskur, það lélegasta sem maður hefur séð lengi. En að liðnu ári. Ég leigði íbúð, missti hana og keypti mér hús. Björninn kláraði skóla og skráði sig í annan, gekk í lið með yfirvaldinu í þessum líka fína búning með flautu og alles. Ég skellti mér í einkaþjálfun sem gekk hálfbrösulega og endaði með því að einkaþjálfarinn réði mig í vinnu í búðinni sinni sem ég sit nú í. Fór í mjög afdrifaríka kaffihúsaheimsókn með Ásunni, stefndi þangað einnig öðru yfirvaldi sem okkur Bjössa er að góðu kunnur, þessi vitleysa mín varð til þess að Ása seldi húsið sitt og flutti inn á yfirvaldið núna rétt fyrir jólin! Geri aðrir betur ha! Ég aðstoðaði Helgu Maríu við að bera út Morgunblaðið um sumarið og skrifa það alfarið á þann auma miðil að ég pantaði mér Danmerkurferð fyrir mig og fjölskylduna. Nú skyldi tekið hús á Heiðunni en yfirvaldið komst ekki með svo að ég fór án lögreglufylgdar í mína aðra utanlandsreisu á ævinni. Jiii hvað var gaman... ég sá ljón og fallegan karlmann í búð í Odense, Skúli vill meina að hann sé hommi, sko búðarkallinn, ekki Skúli sjálfur vonandi...... og þó...eða..... Nú jæja Tívolí og tónleikar, lestarferðir og kaffiþamb með Heiðu er allrameina bót en Visakortið var orðið ansi þungt í veskinu þegar haldið var heim á leið og þó ekki, margur hefur séð það verra. Þrýstingurinn magnaðist svo þegar leið að jólum, brjálað að gera í vinnunni og Björninn orðinn rangeygður í skólabókunum, skólinn var lengdur til 20. des og öll prófin á sömu dögum, tvö á dag í rúma viku. Jólahlaðborð, sumarbústaðaferð, tónleikar Bó Hall í Laugardalshölllinni, allt var á fullu og hvergi slakað á en einhversstaðar brestur stíflan og við hjónin lögðumst í flensu daginn fyrir Þorlák og drengurinn með RS vírus öll jólin. Við vorum eins og sprungin blaðra yfir hátíðarnar. Ji hvað ég þoli ekki janúar. Ég ætla að fara að ráðum Rithöfundarins og telja niður í vorið og næstu jól. Þorrablótið hans Kjartans er á næsta leiti og þangað ætla ég með tengdamóður minni, Ingu sys og fleirum. Ég ætla að dansa frá mér allt vit á nýju ári og fara á öll þau fimleikamót sem Júlía mín tekur þátt í og á alla þá tónleika sem Helga kemur til með að syngja á. Þó verður sennilega ekkert sem toppar það þegar hún söng Ó Helga Nótt, fyrir troðfullri Selfosskirkju á aðventutónleikunum í desember s.l. Ég fæ enn gæsahúð þegar ég skoða upptökuna að því.

Megi nýtt ár færa okkur öllum gleði og hlátur, sólskin og villtar meyjar (nei djók)

ég kveð að hætti Rithöfundarins og segi

úti er ævintýri

2 Comments:

Blogger Heiðagella said...

þú ert svo frábær Lilja mín...

knuz Heiðagella (þú ert alveg velkomin aftur í heimsókn þetta árið líka, þó þú hafir komið í fyrra ;o)

4:10 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Jamm hann er sennilega hommi, og ég sé ekki hvernig þér getur leiðst nokkur mánuður nóg er alltaf stuðið á þér!!!

Kveðja

Skúli Þór

4:30 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home