mánudagur, febrúar 27, 2012

Verkefni í Íslensku, 200 orð um eitthvað sem eg þekki. Skrifað á 10 mínútum.

Í minningunni er bílskúrinn hans pabba, mín paradís á jörðu.

Hann stendur þarna á miðju hlaðinu eins og stór og stæðilegur risi, þess tilbúinn að verja og vernda umkomulausa barnssál sem á það til að flýja í skjólið þegar síst skyldi. Ilmur skúrsins er blanda sakleysis og þess sem lífið skilur. Þarna takast á æskan og ellin, því pabbi minn var gömul sál langt fyrir aldur fram.

Skúrinn er minn griðastaður þó hann geymi í munni sér hættulega gripi, enda lærðist mér snemma að umgangast hann af virðingu og varúð. Olíumettað loftið er blandað allskyns hljóðum sem renna saman í undurþægilega tónlist sem er töfrum líkust. Þarna stíga dans, hamarinn og steðjinn, borvélin og slípirokkurinn, naglarnir og skrúfurnar. Og mitt í öllum dansinum stendur sá er stjórnar, í bláum vinnuslopp með einbeitt augnaráð og staðfastan vilja í rúnum ristum andlitsdráttum. Sá sem stjórnar dansinum, pabbi minn er mín stoð og stytta.

Þessi skúr, mín paradís, sækir mig oft þegar síst skyldi, einnig þegar eg þarf mest á að halda. Eg get enn séð fyrir mér rykmettaðar hillurnar með svörtum olíuslettum, grámálað steingólfið, rauða skápinn með röndunum sem opnuðust sjálfkrafa þegar dyr skúrsins voru opnaðar og buðu góðan dag. Ekki má gleyma daufri angan af Jötungripi og smurolíu sem er besti ilmur í heimi. Í þessum skúr var ég alltaf velkomin og alltaf fann ég einhvern fjársjóð. Ef ekki innra með mér, þá í orðum föður míns eða jafnvel á gólfi skúrsins.

Þessi skúr var hans líf og yndi, hann er mín bernska, mitt barnslega öryggi.

Í minningunni er bílskúrinn hans pabba, mín paradís á jörðu.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home