4. október 1991
Sumir dagar í fortíðinni sitja meira í minninu en
aðrir. 4.október 1991 er einn af þeim.
Ég var ólétt af henni Helgu minni, bara 18 ára, var nýflutt til Reykjavíkur og
farin að búa í kjallaraholu á Grettisgötunni.
Lítil kjallarahola í gömlu niðurnýddu húsi þar sem veggir voru klæddir
gulum palisander og framandi myndir héngu á veggjum. Sambýlismaður minn og barnsfaðir var töluvert
eldri í árum talið. Eg tala um „í árum
talið“ því Ragnar er einn af þeim einstaklingum sem er tímalaus í aldri, hann
er bara Ragnar, aldurslaus. Því á hann
gott með að umgangast fólk á allskonar aldri, allt frá börnum uppí gamalmenni.
Það má eiginlega segja að í litlu
kjallaraholunni hafi svifið andi þeirra sem eru óháðir boðum og bönnum. Við gerðum það sem okkur sýndist, borðuðum
kvöldmat í hádeginu og morgunmat eftir miðnætti og í einni af þessum furðulegu
máltíðum kom sú hugmynd að sniðugt væri ef við myndum gifta okkur. Eg get ekki sagt að eg hafi fengið bónorð, né
hann, heldur var þetta svona meira, „Hey! Giftum okkur!“ Og ekki get eg fyrir mitt litla líf munað
hvort okkar átti þessa uppástungu.
Við
byrjuðum strax daginn eftir að undirbúa brúðkaupið. Ragnar vildi ekki sjá að gifta sig í kirkju
þannig að við pöntuðum tíma hjá borgardómara og þar var okkur tjáð hvers kyns
vottorð og leyfi við þyrftum. Við
þurftum jú hjúskaparvottorð til að sanna að við værum ekki þegar gift, við
þurftum læknisvottorð til að sanna að við værum andlega heil heilsu og Ragnar
þurfti skilnaðarvottorð sem sýndi hvenær hann hefði fengið lögskilnað. „Ha? nei, eg hef aldrei verið giftur“ hváði minn maður og fór strax í gírinn til að
standa fastur á sínu gagnvart kerfisvillum og kolröngu skrifstofufargani. En konan gaf sig ekki, leitaði í tölvukerfinu
og jú, hún fann nafn á konu og giftingardag sem var svo í fyrndinni að ég var
nánast enn með bleyju þegar hann gekk að eiga þessa konu. Þetta var allt frekar vandræðalegt, þetta
var jú í þá daga er fólk gat gift sig til að taka út skyldusparnað svokallaðan
og Ragnar gat gruflað í minninu og jú hann mundi nú eitthvað eftir þessu. Við hlógum lengi að þessu og enn finnst mér
þetta broslegt þegar eg hugsa aftur í tímann.
En Ragnar fékk skilnaðarvottorðið og var löglegur brúðgumi. Við fórum til læknis og fengum uppáskrifað að
við værum ekki andlega veil og því var okkur ekkert að vanbúnaði.
Við áttum tíma kl 11 hjá borgardómara
föstudaginn 4. okt. Við máttum koma með
votta, það var ekki nauðsynlegt, sem betur fer því þá hefðum við lent í
vandræðum. Enginn af minni fjölskyldu
var búinn að hitta Ragnar, móðir mín t.d. frétti ekki að þessu brúðkaupi fyrr
en þremur vikum seinna og það sama var um fjölskyldu Ragnars. Sú eina sem var boðuð í þennan fagnað var
æskuvinkona mín, hún Brynja. Eg hafði fengið frí allan
daginn í vinnunni sem eg var nýbyrjuð í.
Að vísu hafði eg ekki þorað að biðja um meira frí en til klukkan eitt en
þegar yfirmaður minn í bakaríinu sem eg var að vinna í, heyrði tilefnið vildi
hún ekki sjá mig til vinnu allan þann dag.
Við vöknuðum snemma, sem betur fer, því í ljós kom að bíllinn fór ekki í gang. Því þurftum við að hringja eftir leigubíl. En rétt áður en leigubíllinn mætti á svæðið
mætti Brynja til okkar. Ekki af góðu, hún hafði verið að skemmta sér um nóttina, endað í partýi og kom beint úr
því til okkar, í partýgallanum og var ansi hress. Þetta var því skrautlegur hópur sem mætti til
borgardómara þennan morgun. Á þessum
tíma voru peningar eitthvað sem við Ragnar lásum um í blöðum, því kom eg til
dyranna eins og eg var klædd, í risastórum óléttugallasmekkbuxum sem voru rifnar á hnjánum, hvítum bol og úlpu
af Ragnari. Hann var í gallabuxum í stíl
við mig og peysu, Brynja var hinsvegar í stuttbuxnadragt og á pinnahælum.
Borgardómari var til húsa á Hallveigarstöðum
og það fyrsta sem blasti við þegar inn var komið voru tveir háir drottningarstólar
sem kúrðu hlið við hlið undir flennistórri mynd af þáverandi forseta okkar,
Vigdísi Finnbogadóttur. Brynja var með
myndavél og vildi endilega taka mynd af brúðhjónunum í þessum stólum en eg
vildi ekki sjá þess háttar snobb og því er brúðkaupsmyndin af Ragnari einum,
með Vigdísi drottnandi yfir.
Eg man ekki
mikið eftir athöfninni sjálfri. Eg man
að við þurftum að bíða örlítið, Ragnar hafði sem betur fer munað eftir hringunum
og þegar við gengum í salinn minnir mig að borðum hafi verið raða í u. Fyrir
miðju sat fólk í skikkjum og við Ragnar sátum á sitthvorum endanum, á móti
hvort öðru, eg með Brynju mér við hlið en Ragnar með einhvern ókunnugan mann
sér við hlið. Eg man að kona framkvæmdi
þessa athöfn, hún þuldi upp einhverja romsu, við sögðum einhversstaðar „já“. Það eina sem eg man vel var að í upphafi horfði hún stíft á mig og fór með þennan staðlaða texta sem mig minnir að hafi verið
nokkurnveginn svona: „athöfn þessi skal eigi framkvæmd nema með vitund og samþykki
beggja aðila“.
Svo var þetta búið og við
komin fram á gang aftur, Ragnar enn með hringana í vasanum. Þeim höfðum við algjörlega gleymt og hvergi var beðið um eða minnst á neina hringa í athöfninni. Við skelltum þeim upp, fengum koss frá Brynju
sem var að leka niður úr þreytu og bað okkur því næst um að afsaka sig, hún
yrði eiginlega að drífa sig heim. Við
Ragnar drifum okkur út með hjúskaparvottorð upp í erminni og vorum lögð af stað
á kaffihús þegar uppgötvaðist að hjúpskaparvottorðið var ógilt. Nafnið hans Ragnars var kolrangt skrifað og
því var snúið við til að fá þetta lagfært.
Brúðkaupsveislan var síðan haldin á Nýja
Kökuhúsinu, við keyptum okkur tvær tertusneiðar og kakó, nýgift og alsæl með lífið og
tilveruna og hvort annað.
Sama dag, átta árum seinna, sótti eg um skilnað. Þó þetta hjónaband hafi steytt á skeri lít eg
á þetta átta ára tímabil sem fyrsta skrefið í þroska fullorðinsáranna, eg hefði
engu viljað breyta og ekkert viljað gera öðruvísi. Þetta skilaði okkur Ragnari þessum
yndislegu mannverum sem Helga María og Júlía Sif eru. Og fyrir það verð eg þessu hjónabandi og
Ragnari ævinlega þakklát J
1 Comments:
Alltaf skemmtilegir pistlarnir þínir :-)
Takkk
Heimir
Skrifa ummæli
<< Home