þriðjudagur, október 10, 2006

einu sinni cha cha cha, tvisvar sinnum cha cha cha....

......jamm við Björn erum að verða alveg hrikalega góð í dansinum. Stefnum á íslandsmeistaramótið í samkvæmisdönsum eftir áramót. Nei segi bara svona, maður verður víst að hafa egóið í lagi. Annars eru tíðindi dagsins þau að sonur minn stóð upp í rúminu sínu í kvöld. Móðir hans var reyndar eina vitnið og verðið þið bara að taka hana trúanlega. Hann var svo stoltur og byrjaði að dansa og hossa sér upp og niður og skellti hökunni náttúrulega á rúmbríkina og fór því að gráta. Þar með var það búið í bili en stóráfanga náð, miklu stærri en Hálslón og skiljum við ekkert í því að Ómar Ragnarsson skyldi ekki vera á vaktinni í svefnherberginu.
Ég er varla búinn að jafna mig á viðburðum helgarinnar. Ingi Þór varð fertugur í vikunni sem leið og kíktum við í afmælið hans á föstudaginn og verð ég að segja að annað eins afmæli hef ég aldrei verið í. Maturinn, maður minn! Humarrísottó, maríneraður saltfiskur, safaríkur kjúklingur á teini og ég veit ekki hvað og hvað. Og afmælisgjöf kvöldsins og aldarinnar jafnvel, var uppblásin belja sem baular þegar hún er kynferðislega áreitt. Henni fylgdi svo sleipiefni og handklæði til að þurrka svitann. Var þessi gjöf vandlega valin af undirritaðri og svo henni Söndru og þeystum við í Smárann til að kíkja í þessa líka fínu erótísku búð sem ég mæli svo sannarlega með. Þjónustan var alveg afbragð og vantaði bara að maður fengi að prófa herlegheitin svo maður gæti tekið ákvörðun. Ég hitti Inga kvöldið eftir á næsta djammi og sagði hann konuna sína, hana Döllu, alveg í skýjunum yfir þessari gjöf og gerði þar gæfumunin sleipiefnið góða. Sem sagt, jólagjöfin í ár til okkar Bjössa. Nú nú kvöldið eftir var svo herjað í Rauða húsið aftur en ég hörfaði frá sökum drykkjuláta gestanna sem ég vil meina að hafi verið með versta móti. Tónlistin aftur á móti alveg hreint unaður á að heyra og alltof góð fyrir þennan drykkuskríl sem á heyrði. Íslendingar kunna bara ekki að skemmta sér.
Næsta helgi spannar svo heilt strengjasveitarmót í Þorlákshöfn sem og afmælið hennar Lólóar sem verður tuttugu og fimm. Þetta er eintómt fjör. Pabbi minn á svo afmæli á morgun og Helgi á sunnudaginn en hann kemur einmitt í land á laugardaginn þannig að partýdressið hefur nóg að gera hjá frúnni. Til hamingju öll með þessi afmæli!
Nú er hún Katrín mín orðin lasin og Helga líka, læt þetta gott í bili
Mambó Ljón í tjúttfílíng

3 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Þú mistir af megasi nanana hehe Lou Reed hvað. Mambo on baby doll

6:39 e.h.  
Blogger Ljónið said...

Berðu ekki saman Megas og Lou Reed! Hef séð fullt af tónleikum með Megasi, örugglega fleiri en þú hefur séð og enga öfund yfir Lou Reed, þér var nær!

7:18 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Ég tek nú Megas fram yfir Lou Reed enda er mitt mottó Íslenskt já takk.

11:35 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home