fimmtudagur, október 04, 2012
þriðjudagur, mars 20, 2012
Morgunstund gefur gull í mund..
Þegar fyrsta skíma morgunsins læðir sér innum gluggann, byrjar lítill kútur að bylta sér. Hann teygir fyrst hendurnar út og geispar, opnar svo augun og blikkar þeim nokkrum sinnum. Þar sem myrkvatjöldin ná enn að halda morgunskímunni í skefjum er strákur ekkert að flýta sér að vakna til meðvitundar, hann tekur sér góðan tíma áður en hann bröltir fram af rúmbríkinni og skýst undir sæng móður sinnar. Þannig kúrir hann góða stund þar til fimur kötturinn stekkur uppá kojubríkina og sýndir undraverða takta í jafnvægislistum.
„Sjáðu Ronju mamma, er hún ekki eins og sirkuskisa?“
Jú, mamman samsinnir því með annað augað lokað.
„Við gætum vel stofnað sirkus, þú væri flottur sirkusstjóri“ svarar hún svo og hann vefur handleggina um háls hennar.
„mamma, þú gætir verið kisutemjarinn og ef eg er sirkusstjóri þarf eg mátulega stóran hatt, svartan jakka, hvíta skyrtu og buxur.“
„Já og göngustaf, þú þarft fínan göngustaf með hvítan hnúð á endanum. Kannski gætirðu meira að segja sýnt töfrabrögð“ Mömmunni finnst þetta alls ekki svo slæm hugmynd hjá sér en stráksi er ekki til í þetta.
„Nei eg vil bara vera sirkusstjóri, svo getur Júlía verið trúður og systa rólað í svona stórri rólu og Gunni getur verið hundatemjarinn“.
Strákurinn er sestur upp, grípur Ronju í fangið og er orðinn hugfanginn af þessarri stórgóðu hugmynd sinni.
„Það mega koma fjórir gestir og það á ekki að kosta mikla peninga inn“ heldur hann svo áfram ákveðinn.
„Fjórir gestir? Það er alltof lítið, eigum við ekki að hafa sæti í hring og fá fullt af fólki, þú getur selt miða...“
„... já og nammi“
grípur strákur frammí fyrir mömmu sinni.
„Eg vil selja nammi og svala og svo fá allir blöðrur sem kaupa miða.“
„Þetta er góð hugmynd Krummi, við gætum kannski keypt fíl fyrir alla peningana, til að hafa í sirkusnum? Helga og Kolbeinn gætu verið líka og hugsað um fílinn og kannski kæmi líka kyrkislanga“
Strákurinn fer að hlæja að vitleysunni í mömmu sinni.
„Nei mamma, fílar eru stórir og svo eigum við ekki svona búr undir kyrkislöngu“
„En við gætum haft tívolítæki eða hvað? Svona parísarhjól og klessubíla og við þurfum að hafa spákonu, Katrín gæti séð um það“
Stráksi er orðinn uppverðraður af hugmyndinni, í augum hans eru farin að snúast hringekjur og parísarhjól.
„Við gætum selt candyfloss, eg elska candyfloss“ segir guttinn.
Um leið hringir klukkan, þessi bévítans klukka sem skemmir alla drauma og dregur mann burt frá þessu skemmtilega og inní núið.
„Jæja Krummi, ætli við verðum ekki að fara að klæða okkur“
Strákur er aldrei slíku vant snöggur af stað en er enn með ævintýranlegan glampa í augunum.
Það er stundum alls ekki svo slæmt að vera sex ára.
fimmtudagur, mars 15, 2012
15.mars 2012
Hún......
..............var lítil með svartar krullur og dökk á brún og brá
..............átti þrjá pela og svaf með þá alla, kallaði þá lallakútana
..............átti það til að flækja vísifingur í krullunum svo mamman
varð einu sinni að klippa lokkinn
..............sofnaði stundum með rassinn uppí loft inní fataskáp
..............var fljót að læra að labba
..............svaf uppí mömmubóli meðan lögreglan leitaði
hennar um allan Selfossbæ
..............elskaði Latabæ
..............lærði snemma að baka skúffuköku
..............fékk verðlaun í stærðfræði
..............vill helst sofa með opinn gluggann
..............elskar ekki Justin Bieber en kann þó lögin hans
..............spilar á gítar og fiðlu
..............má ekki missa af Jóa Fel í sjónvarpinu
..............er jólabarn mömmu sinnar
..............og uppáhald stóru systur
..............elskar að horfa á Friends þegar hún fer að sofa
...............þolir ekki hvað mamma hennar á marga ketti
..............vill helst hafa Fahitas í mat alla daga
..............lætur ekki vaða yfir sig
..............hefur einstaklega góða nærveru
..............er dugleg í skólanum
..............er dugleg heima
..............er dugleg alltaf
..............er ótrúlega vandvirk
..............er svo mikið mikið falleg
..............er 16 ára í dag
..............er Júlían mín
mánudagur, febrúar 27, 2012
Verkefni í Íslensku, 200 orð um eitthvað sem eg þekki. Skrifað á 10 mínútum.
Í minningunni er bílskúrinn hans pabba, mín paradís á jörðu.
Hann stendur þarna á miðju hlaðinu eins og stór og stæðilegur risi, þess tilbúinn að verja og vernda umkomulausa barnssál sem á það til að flýja í skjólið þegar síst skyldi. Ilmur skúrsins er blanda sakleysis og þess sem lífið skilur. Þarna takast á æskan og ellin, því pabbi minn var gömul sál langt fyrir aldur fram.
Skúrinn er minn griðastaður þó hann geymi í munni sér hættulega gripi, enda lærðist mér snemma að umgangast hann af virðingu og varúð. Olíumettað loftið er blandað allskyns hljóðum sem renna saman í undurþægilega tónlist sem er töfrum líkust. Þarna stíga dans, hamarinn og steðjinn, borvélin og slípirokkurinn, naglarnir og skrúfurnar. Og mitt í öllum dansinum stendur sá er stjórnar, í bláum vinnuslopp með einbeitt augnaráð og staðfastan vilja í rúnum ristum andlitsdráttum. Sá sem stjórnar dansinum, pabbi minn er mín stoð og stytta.
Þessi skúr, mín paradís, sækir mig oft þegar síst skyldi, einnig þegar eg þarf mest á að halda. Eg get enn séð fyrir mér rykmettaðar hillurnar með svörtum olíuslettum, grámálað steingólfið, rauða skápinn með röndunum sem opnuðust sjálfkrafa þegar dyr skúrsins voru opnaðar og buðu góðan dag. Ekki má gleyma daufri angan af Jötungripi og smurolíu sem er besti ilmur í heimi. Í þessum skúr var ég alltaf velkomin og alltaf fann ég einhvern fjársjóð. Ef ekki innra með mér, þá í orðum föður míns eða jafnvel á gólfi skúrsins.
Þessi skúr var hans líf og yndi, hann er mín bernska, mitt barnslega öryggi.
Í minningunni er bílskúrinn hans pabba, mín paradís á jörðu.
mánudagur, janúar 30, 2012
31. janúar 2012
Á köldum desembermorgni stendur lítil stúlka á efri hæðinni í Kringlunni og horfir í kringum sig. Hún er dúðuð í hlý föt sem mamma hennar er að baksa við að klæða hana úr en það gengur erfiðlega. Stelpan á erfitt með að vera kyrr og hún heldur dauðahaldi í reimarnar á grænni og hvítri loðhúfu sem á greinilega ekki að fá að losna. Mamma hennar lætur því nægja að taka af henni úlpuna og koma henni fyrir í hólfi á kerrunni sem þær eru með.
Um leið notar stúlkan tækifærið. Hún er frá á fæti og tekur stefnuna á rúllustigann sem liggur niður á hæðina fyrir neðan. Það er fjölmargt fólk í Kringlunni þennan morgun, jólatónlistin flæðir um og skreytingarnar heilla lítinn stelpuhnokka sem sér þó ekkert annað þessa stundina en þennan heillandi stiga sem rúllar í hring. Fólk stoppar og horfir en hefur þó ekki rænu á að grípa barnið. „Sjáðu álfinn“ segir lítill drengur sem horfir í forundran á þessa litlu veru. Enda ekki skrýtið. Hún er jú bara 10 mánaða í alltof stórum smekkbuxum og með þessa skondnu húfu með þremur dúskum sem dingla til og frá.
Mamman hefur loksins lokið við að ganga frá kerrunni og snýr sér við til að grípa barnið en grípur í tómt. Og stekkur af stað. Nær henni sem betur fer í tæka tíð en þó má ekki miklu muna. „Jesús minn Helga María“ stynur mamma upp í sjokki yfir því sem hefði getað gerst en stelpan horfir hissa á mömmu sina, setur i brýrnar og segir ákveðin „sjá jólaté“ Jú blessað jólatréð... Og morguninn er tekinn í að rápa um verslunarmiðstöðina í leit að jólatrénu sem hafði verið í auglýsingunni í sjónvarpinu kvöldinu áður og heillað hafði stelpuna svo mikið að hún hafði ekki talað um annað. Hún hvílir sig af og til í kerrunni meðan mamma kaupir eina og eina jólagjöf. Lítill hvítur jólakjóll er keyptur og skór í stíl.
Svo loksins, loksins fær hún augum litið þessa dýrð, jólatréð í fullum skrúða. Þá fyrst rífur hún af sér húfuna. Lokkarnir eru ljósir og hrokknir. „Glóbjart liðast hár um kinn...“ Ljósbláu augun skína í birtunni af trénu og hún verður hugfangin á svipinn. Hún hefur upp raust sína við jólatréð, syngur „Adam átti syni sjö“ aftur og aftur. Fólk stoppar og hlustar. Hún er svo skýr, svo altalandi svona lítil, fer aldrei útaf laginu og syngur svo meira, „pabbi segir pabbi segir“. Ja hérna heyrir mamman hvíslað hér og þar og hún leyfir stelpunni sinni að klára jólalögin sem hún veit að stúlkan kann.
Árin liðu, hún fór í leikskóla, grunnskóla, menntaskóla. Líka í tónlistarskóla og söngskóla. Hún hætti að ganga í kjólum, var oft með moldina upp að hnjám þar sem náttúran heillaði hana alltaf og hún gat alltaf fundið sér forarpytt að leika sér í þegar hún var lítil.
Einu sinni mislíkaði henni og hún gerði tilraun til að strjúka að heiman en gleymdi svo að fara þegar til átti að taka. Ennþá eru skilaboðin sem hún skrifaði á blað, mömmunni minnistæð: „Eg get ekki búið við þetta lengur og hef ákveðið að strjúka að heiman....“
Hún hefur gert mömmu sína oft á tíðum gráhærða en aldrei lengi og alltaf stolta. Og alltaf er hún jafn heilluð af jóladýrðinni, alltaf jafn hátíðleg þegar jólin ganga í garð.
laugardagur, janúar 21, 2012
Memory lane.......
Eftir þröngri íbúðargötu hlykkjast gangstéttin, hlykkjast í hæðum og lægðum, þráðbein og örmjó. Gatan er í einstefnu og því er bílunum lagt öðru megin en þó hefur einstaka bíll af eintómri þvermóðsku slæðst hinu megin. Sumir þurfa alltaf að vera á rangri hlið í lífinu.
Þegar gengið er upp götuna að miðju, er beygt inn á milli tveggja reisulegra húsa. Örmjór stígur liggur að hrörlegu bakhúsi, sem samt reynir að halda í virðuleikann sem eitt sinn hefur eflaust einkennt þetta hús, enda er þetta með stærri húsum í þessarri götu. Einu sinni málaði gömul kona þetta hús hvítt. Síðan eru liðin mörg ár og sumstaðar er málningin farin að flagna og á öðrum stað er hún upplituð af veðráttu löngu liðinna ára. Göngustígurinn endar við skellóttar steintröppur sem liggja að ljósblárri skellóttri hurð.
Hurðin opnast út. Vitlaust mundu sumir segja. En menn hafa löngum haft skoðanir á því hvort útidyrahurðir eigi að opnast inn ellagar út. Og hvort er inn og hvort er út? Fyrir innan þessa skellóttu hurð kúrir lítill ísskápur í forstofu. Hann er einkar aumingjalegur að sjá, eflaust svangur. Framleiddur á sínum tíma í Austur-Evrópu og þekkir því lítið annað en skort. Þegar gengið er inn um þessa útidyrahurð blasir við hurð upp stiga. Hún er flestum lokuð en á hægri hönd er hurð sem liggur inn í þvottahús. Ef þvottahús skyldi kalla. Þar húka saman nýmóðis þvottavélar tvær, þarna sitja þær með vanþóknunarsvip enda þetta þvottahús, með þykku ryklagi og moldargólfi, þeim klárlega ekki samboðið.
Í forstofunni er það hurðin til vinstri sem allt snýst um. Þangað liggur leiðin, innfyrir þá hurð. Hún er litlaus og traust. Með nýjum ASSA lás sem glampar á og smellir lásnum til baka þegar gljáðum lykli er stungið í skrána.
Hurðin opnast inn að þessu sinni og fyrir innan blasir við eldhús. Á gólfinu er ljósyrjóttur gólfdúkur, sem einhvern tímann hefur verið hvítur en er nú orðin hlandgulur af elli. Undir glugga liggur eldhúsbekkur með neðri skápum. Grænleit borðplata með stórum og smáum rispum. Skáparnir hvítir með silfurhöldum. Við endann á borðplötunni er lítill appelsínugulur bakarofn með tveimur litlum eldavélahellum á .
Hægra megin við forstofuhurðina, hinu megin við stálvaskin, er hurð inn á salernið. Salernið er lítið. Klósettið er staðsett inní sturtunni svo hægt er að gera marga hluti þar inni í einu.
En það er fleira inní þessu eldhúsi. Við hliðina á salernishurðinni er borðplata sem er kvarthringur. Hún er fest með viðvaningslegum hætti beint á veggina í hornið og við þessa plötu bíða háir barkollar í viðbragðsstöðu, enda aldrei að vita hvenær næstu rassar hlunka sér á kollana.
Þar sem borðplatan endar er hurð, hún snýr beint á móti forstofuhurðinni og opnast inn í eldhúsið sem gerir það að verkum að ef setið er við þetta ámátlega vegg-hringborð þarf sá hinn sami að standa upp og færa sig. Þessi hurð liggur að stofunni, sem er bæði stofa og svefnherbergi í senn. Teppalagt rými, veggir klæddir gulri gervi-viðarklæðningu úr plasti. Mjög ósmekkleg veggklæðning og gefur herberginu annarlegan blæ. Á veggjunum hanga sv/hv listaverk þýskrar konu og eru í hrópandi mótsögn við umhverfi sitt. Upp við vegginn, sem skilur að rýmið og eldhúsið, er tvíbreitt rúm, svartur kassi með svartri dýnu. Á náttborðinu við rúmið er stúfullur öskubakki og hálftómur Winston sígarettupakki. Hinu megin í rýminu er grænn, örmjór hermannabeddi sem einhvern tímann hefur verið keyptur hjá Sölu Varnarliðseigna.
Það er ekki mikið fleira þarna inni. Jú, lítið gamalt skrifborð úr rósavið, með bókahillu í stíl, lætur lítið fyrir sér fara í einu horninu. Ofan á þessu skrifborði er ritvélin. Gömul þýsk ritvél úr seinni heimstyrjöldinni, smíðuð af nasistum. Níðþung en samt svo máttlaus, því borðinn er löngu búinn og enginn leið að finna ritfangasala sem selur stríðsborða í ritvél. Og einhversstaðar bíður lítil dökk viðarvagga á hjólum þess, að umvefja litla telpu sem á svo margt annað og betra skilið en að byrja lífið í þessarri holu.
Þarna til hliðar er líka sjónvarp. 20 tommu Luxor sjónvarp á stálfótum með hjólum. Sv/hv sjónvarp í viðarkassa sem malar endalaust fréttir af auknu atvinnuleysi, ástandinu í Sovétríkjunum (enda Gorbatsjov ný farinn frá völdum), andstöðu landsmanna við EES eða andstöðu við ríkisstjórnina. Enda eru vinstimenn við völd og því sjaldnast friður, hvorki í þeirra eigin herbúðum né annarra.
Hér, í þessarri litlu íbúð, ríkir andi vonleysis og vonbrigða, þó bjartsýnin sé skammt undan. Ekkert heyrist nema gráturinn í barninu sem býr við hliðina og er búið að gráta í mörg ár. Og þegar mykrið skellur á magnast upp allskyns hljóð sem blandast hvæsinu í villiköttunum sem eru hér allstaðar og elda saman grátt silfur í næturhúminu
Eg sný mér við, geng út og loka hurðinni fast á eftir mér. Lít ekki til baka og geng götuna áfram, þar til eg beygi niður hliðargötu og þá tekur við mér Laugarvegurinn með allri sinni gleði og sínu lífi. Eg hverf inní mannfjöldann og er horfin frá þeim undarlega stað þar sem tíminn stóð kyrr og angan brostinna vona lá eins og mara yfir.
mánudagur, nóvember 21, 2011
Sannleikurinn um Gaddafi
Í skýrslu Sameinuðu Þjóðanna frá snemma árs 2011 koma ýmsar staðreyndir fram sem hingað til voru ekki á allra vitorði og jafnvel verið stungið undir stól af yfirvöldum vestrænna ríkja. Í skýrslunni er meðal annars rætt um þær miklu félagslegu úrbætur sem Gaddafi kom á. Til að mynda var öll læknisþjónusta frí ásamt menntun á öllum stigum. Komið var á félagslegu bótakerfi fyrir aldraða, öryrkja og langveika landsmenn. Réttindi kvenna voru mun meiri en í öðrum löndum arabaheimsins. Við giftingu fengu hjón um 50 þúsund dollara styrk til húsnæðiskaupa, raforka var frí og eldsneyti mjög ódýrt ef ekki frítt.
Í skýrslu Sameinuðu Þjóðanna kemur ennfremur fram að það séu ekki framin mannréttindabrot í Líbýu. Sem var einmitt opinber ástæða þess að hinn vestræni heimur taldi sig knúin til þess að
grípa inní og bjarga landinu frá harðstjórn hans. Samkvæmt skýrslunni er þetta ríki talið mjögframarlega í mannréttindamálum í Miðausturlöndum ef ekki víðar.Líbýa var eitt fátækasta ríki heims áður en Gaddafi komst til valda. Honum tókst að færa þetta land inní nútímann og nú er auður Líbíu talinn vera gríðarlega mikill og landið skuldlaust. Þá vaknar upp sú spurning, hvers vegna er verið að myrða leiðtoga sem hefur náð að færa heila þjóð til nútímans aftur úr steinöld?
Það er einkennileg sú staðreynd að þau lönd sem Bandaríkjamenn hafa fundið sig knúna til aðbjarga frá „grimmilegum“ einræðisherrum skuli öll vera rík af olíu og að seðlabankar þeirra tengjast ekki bankakerfi heimsins. Það að Seðlabanki Líbýu sé ekki tengdur alþjóða fjármálamörkuðum þýðir að gróði seðlabankans skilar sér ekki út í alþjóðahagkerfið. Seðlabanki Líbýu er því ekki gróðamylla heldur er hann einungis til þess ætlaður að halda utanum fjármálakerfi líbýsku þjóðarinnar. Sem maður mynda ætla að væri einmitt hlutverk seðlabanka hverrar þjóðar.
Það er einkennileg sú tilviljun að einmitt á þeim tímapunkti sem uppreisnarmenn láta að sér kveða gegn Gaddafi er hann að gefa það út að vilja fá greitt fyrir olíuna í gulli en ekki í dollurum. Það er líka furðuleg staðreynd að Bandaríkjamenn hafa gefið það út að eftir að hafa fryst eigur Gaddafis verður aðeins tæplega helmingnum skilað aftur til líbýsku þjóðarinnar.
Einsleit fréttamennska
Vestrænir fréttamiðlar hafa verið duglegir við að lýsa ástandinu í Líbíu fyrir alþjóð. Gaddafi er lýst sem brjáluðum einræðisherra, myndir sýna hann illúðlegan á svip, sótsvartan í andliti. Hvergi eru þó neinar heimildir fyrir þessum lýsingum. Gaddafi kom fram í viðtölum sem staðfastur leiðtogi, hann stóð fastur á sínu, talaði tæpitungulaust. Hann átti tíu börn, þar af tvö ættleidd. Myndin sem dregin er upp af landi og þjóð er lituð fátækt og skorti. Þó er auðveldlega hægt að leita uppi myndir sem sýna klárlega hið gagnstæða
Sem gott dæmi um hina einsleitu umfjöllun sem verið hefur, er fréttaskot sem birtist í fréttum BBC þar sem fólk er sagt hafa hópast útá götu í gríðarlegum fagnaðarlátum vegna andláts Gaddafis. Þegar betur er að gáð sést að fáninn sem fólkið veifar í sífellu er fáni Indlands.En hvað gerist svo?
Nú er búið að „leysa vanda“ líbýsku þjóðarinnar. Hvaða lönd er það þá næst sem búa við harðstjórn og harðræði einræðisherra? Nú þegar, eru bandaríkjamenn farnir að gæla við þá hugmynd að ráðast inn í Íran. Hvað á Íran sameiginlegt með Írak, Líbíu og Kúveit? Jú, Íranir eiga olíu og Íranski Seðlabankinn er ekki tengdur alþjóða fjármála-
Fyrir þá sem vilja lesa nánar um málefni Líbýu er bent á:
http://www2.ohchr.org/english/bodies/hrcouncil/docs/16session/A-HRC-16-15.pdf
http://www.ssa.gov/policy/docs/progdesc/ssptw/2010-2011/africa/libya.pdf
http://www.britishcouncil.org/learning-skills-for-employability-libyan-education-system.htm
Guðrún Lilja Magnúsdóttir
Gunnar Jökull Karlsson
Höfundar eru í námi við Háskólann á Bifröst.