sunnudagur, júlí 25, 2010

next stop Odense.....

Það er ekkert eins fallegt og íslenskur júlímánuður.... í sól og blíðu.... síðla kvölds. Þegar kvöldsólin skartar sínu fegursta og fjöllin iða af kæti. Það var ekki mjög leiðinlegt að keyra landið þvert og endilangt, alla leið á Seyðisfjörð, á X- 360 sem var drekkhlaðin dóti og allskyns glingri. Ég var hlaðin dóti í aftursætinu... með þrjá lampaskerma og bakpoka í fanginu en hafði þó lausa hönd til að teygja mig í þá dýrindis köku sem hún mamma mín útbjó í nesti handa okkur. Súkkulaðibrúna jólakakan hennar móður minnar svíkur engan og alls ekki slæmt að gæða sér á henni þegar fara skal að heiman til fjarlægra landa. Og ferðin gekk vel. Þó verð ég að viðurkenna að ansi voru nú austfirðirnir langdregnir..... mig alveg hreint undrar það hvað fólk getur búið afskekt. Sumstaðar voru bóndabæir einir og sér og ekki nálægt mannabyggð, eiginlega ekki nálægt neinu ef satt skal segja. Fólk hlýtur að verða einrænt og skrýtið af því að búa þarna fyrir austan. Þá eru nú sunnlensku sveitirnar fallegri og byggilegri á að líta ;)

Við höfðum góðan tíma. Vorum líka á góðum bíl. Fararskjóti Vatnsholtshöfðingjans hefur engan svikið hingað til og gerði ekki heldur núna. Og Seyðisfjörður blasti við, loksins, um kl. 5 um morguninn og alveg 4 tímar þar til gengið yrði um borð í Norrænu. Seyðisfjörður heillar ekki. Þangað langar mig ekki aftur ótilneydd, akkúrat ekkert við þennan stað. Og kettirnir mjálmuðu ámátlega í aftursætinu, ekkert sérlega spenntir fyrir þessu ferðalagi en höfðu hagað sér óaðfinnanlega alla leiðina, sérstaklega kötturinn minn, sem er annálaður fyrir gáfur og góða hegðun. Eitthvað annað en kötturinn hennar Júlíu sem stígur ekki í vitið;)

Klukkan 9 var byrjað að ferja í Norrænu, það tók rúman klukkutíma og vesenið með kettina alveg með ólíkindum. Enginn vissi hvað skyldi gera við þá og eftir hálftímabið og tómt þjark tókst mér að koma þeim um borð. Sem betur fór höfðum við gert ráðstafanir varðandi kattasandi og mat handa þeim, annars hefðum verið með kettina í svelti í tæpa 3 sólarhringa.

Norræna var æðisleg, ég bjóst reyndar ekki við miklu eftir sorglega upplifun Brynju minnar. En skipið var æðislegt, áhöfin brosandi og kát, bæði við ferfætlinga sem og okkur hin. Ég held ég hafi aldrei sofið eins vel og eins og þessar tvær nætur um borð. Hins vegar klikkuðum við á því að hafa eitthvað meðferðis til að hafa ofanaf fyrir okkur. Ég var með yatzy meðferðis og við spiluðum það endalaust, lögðum okkur svo yfir miðjan daginn og kúrðum á göngunum fyrir allra fótum og létum okkur líða vel. Ég missti af Færeyjum þar sem þar var stoppað á mjög svo ókristilegum tíma en Gunni virti fyrir sér Þórshöfn og lét vel af. Hins vegar heilluðu Hjaltlandseyjar og þangað ætlum við að fara við fyrsta tækifæri. Við fundum ekki fyrir sjóveiki. Sennilega var því að þakka hvað hún Guðrún Eyrbekkingur var forsjál. Hún sendi okkur af stað með sjóveikitöflur sem við tókum inn, strax fyrsta daginn. Þar með get ég með sanni sagt og bindindið mitt hafi endað sitt skeið. Ég varð alveg syndandi af þessum töflum, sat hálf rænulaus í kaffiteríunni með hangandi haus. Því ákvað ég að takmarka notkun mína á þessum ágætu töflum og kom ekki að sök. Þó var ansi mikil alda, sérstaklega seinni daginn.

Danmörk tók brosandi á móti okkur, glampandi sól og hiti, fuglasöngur í heiði.... og þó. Ekki mikið um heiðar, danska grundin ansi flöt og skrýtið að sjá ekki til fjalla. Og ég, sem sá Heklu, Hestfjall, Eyjafjallajökul og Þríhyrning útum gluggana í sveitinni forðum, fylltist stolti yfir því að tilheyra þessum spræku og sprelllifandi fjöllum. Ég er hrædd um að hún móðir mín elskuleg myndi ekki kunna að meta þetta fjalllausa danska landslag.

Um kvöldmatarleytið barði ég á dyr í Hjallese, hjá henni Heiðu og þau skötuhjúin búin að gera ráð fyrir okkur í kvöldmat. Þar fékk ég lyklavöldin af nýja hreiðrinu mínu og þangað héldum við eftir trekteringarnar hjá hænsabóndanum og fjölskyldu.

Íbúðin okkar er æðisleg, nýmáluð og fín, á svaka fínum stað, kettirnir farnir að kunna við sig og við erum búin að eyða fyrsta deginum okkar við að kanna nánasta umhverfi.

Svo er bara að taka á móti börnunum sem koma strax eftir mánaðarmótin og það sem ég sakna þeirra......

Nú er að bíta á jaxlinn og taka víkinginn á þetta... margur hefur jú stigið danska grund í því markmiði að mennta sig. Og fyrst Jón karlinn Hreggviðsson komst klakklaust í gegnum sitt ferðalag hlýt ég að geta það líka..........

fimmtudagur, júlí 15, 2010

it´s the end of the world...

.... as we know it....!


3. sumarið af síðastliðnum 4 sumrum sem fer í flutninga.
Ég hamast við að pakka og flytja drasl á milli.... endalaust.. frá morgni til kvölds.
Og milli þess sem dót er látið detta oní kassa eða skúffu, reikar hugurinn fram og tilbaka aftur og stundum langt aftur í tímann.
Það er getur verið erfitt að pakka niður liðnum tíma, jafnvel með það í huga þessi tími verði ekki tekinn til endurskoðunar í bráð. Þess vegna pakka ég hratt og hnitmiðað... öllu er fleygt niður í eitthvað til að geyma það í og reyni ég að hugsa sem minnst um notagildi þar sem erfitt er að ákveða hverju skal halda og hverju skal farga.
Til þess þarf ég meiri fjarlægð... meiri tíma... meira næði, næði til að hlæja, ellegar gráta... allt eftir því sem við á.

Og þó undarlegt megi virðast er léttir að stíga á skipsfjöl.... allavega ennþá. Loks hef ég markmið sem ég hef svo lengi beðið eftir að geta sett mér. Með fullt fangið af góðvild þeirra sem standa mér næst ætla ég að halda utan og læra, þó ég sé kannski að falla á tíma. Það er ekkert töff við það að klára nám til þess eins og taka á móti ellilífeyri.

Það eru undarlegir straumar í kringum þessa flutninga. Tilhlökkun og stress, áhyggjur af að standa sig ekki og áhyggjur af röngum ákvarðanatökum. Ég virðist hafa tapað þeim eiginleika að hlusta á hjartað og láta svo skynsemina ráða för.... nú takast þessi tvö öfl á og hvorugt hefur betur. Því hef ég fengið skynsemina lánaða annars staðar frá... frá mér reyndari aðilum og allir hvetja mig áfram.... "nú er lag".

Og ef satt skal segja vantar mig að vita hvar ég á heima... og hverjum ég tilheyri. Hef aldrei talið mig selfyssing og hef ekki talið mig hafa beinlínis taugar til sveitinnar minnar, þó er alltaf gott að taka hring í Villingaholtshreppnum og kannski enda ég þar... sem hænsnabóndi eða eitthvað álíka gáfulegt.

Eftir viku verð ég farin og veit ekki hvenær ég kem aftur ....


Svo dramatíst sem það er nú......