fimmtudagur, febrúar 24, 2011

Hunskastu heim íslendingur......

Ég er algjörlega búin að fá nóg af umræðunni um Icesave.

En nú er svo komið að ég get ekki orða bundist.

Fyrir ekki svo mörgum árum síðan voru kosningar á Íslandi. Alþingiskosningar. Þá komst til valda Davíð Oddsson. Í skjóli þessa manns og margra annarra íhalds- og framsóknarmanna þrifust allskyns vafasamir viðskiptahættir sem of langt mál væri að telja hér. Bankar á Íslandi voru gefnir fáum útvöldum og eyjan okkar góða trónaði efst á vinsældarlistum kauphalla víða um heim.

Landinn skemmti sér. Keypti bíla og hús, á myntkörfulánum sem þóttu hið mesta þarfaþing, fór í reisur yfir höf og vötn og bankamenn og hlutabréfahöndlarar lofuðu Guð og íslensku krónuna. Loksins voru til á landinu okkar “alvöru” auðjöfrar, sem voru lagðir til jafns við Donald Trump og fleiri. Þeir átu gull og græna skóga hingað og þangað um heiminn og forsetinn okkar flaug á þeirra vegum í veislur, til Kína, Indlands og guð má vita hvert.

Nú er komið að skuldadögum.

Nú er komið í ljós hvað blessaðir “auðjöfrarnir” okkar voru að bardúsa með samþykki íslensku ríkisstjórnarinnar og á okkar ábyrgð.

Því ábyrgðin er klárlega okkar. Við kusum þessa menn, aftur og aftur í blindni. Við kusum menn sem lofuðu ríkisábyrgð á Icesave reikningum. Nú er í óefni komið, ábyrgðin féll og það er okkar að borga. Einfaldlega vegna þess að EINHVER VERÐUR AÐ BORGA ÞETTA! Það er ekki hægt að lofa og skrifa undir ríkisábyrgð og segja svo að ríkið eigi bara að svíkjast undan merkjum. Viljum við ekki vera þjóð með þjóðum? Viljum við ekki láta taka mark á okkar loforðum og undirskriftum? Facebook, spjallrásir, útvarp, sjónvarp... allt logar í umræðum um Icesave. Enn hef ég ekki fengið þau rök sem mér finnst mark á takandi fyrir því að borga þetta ekki. Fólk segir :

“Þetta er ekki mín skuld”

“Ég borga ekki annarra manna skuldir og bað ekki um þetta”


Fólk hinsvegar tók myntkörfulán sem voru dæmd ólögleg. Allir vilja endurútreikninga og endurgreiðslu, þó áhættan hafi klárlega verið ljós þegar lánið var tekið. En Guði sé lof fyrir hæstaréttardóm og þar með grundvöll fyrir að fá peningana sína til baka. Peningana frá hverjum þá? Jú, á endanum borgum við þetta öll, líka við sem engin myntkörfulán tókum og ekkert þýðir að æpa þá “já, en þetta er ekki mín skuld” Icesave er nefnilega skuld okkar allra, að minnsta kosti þeirra sem kusu þetta blessaða fjandans íhald endalaust, flokk sem skapaði grundvöll fyrir þetta fjandans rugl allt.

Og hvað gerðist svo? Íhaldinu var komið frá, vinstimenn tóku við að moka flórinn undan Geir og Bjarna, Sigmundi, Halldóri Ásgríms og náttúrulega Davíð. Og þvílíkur flór sem íhaldið skyldi eftir í haughúsinu. Jóhanna og Steingrímur vaða rúmlega uppí klof og hafa ekki við. Þau létu almenning plata sig í að taka að sér þetta verkefni sem í raun átti að vera íhaldsins að sjá um, mjög óvinsælt verkefni, margar erfiðar ákvarðanir að taka. Þ.á.m. ICESAVE. Og að sjálfsögðu er ekki hægt að skorast undan þeirri ábyrgð að borga það sem lofað var að ábyrgjast, burtséð hvers skuldin væri.

Einhver sagði: “Ríkistjórnir þessarra landa geta séð um sitt fólk”, en af hverju á ríkisstjórn Breta eða Hollendinga að borga skuld sem íslenskir “auðjöfrar” stofnuðu til með íslenska ríkisstjórn á bakvið sig??? Viljum við kannski borga skuldir sem bretar hafa skuldbundið sig til að borga?

Heldur fólk að með dómi gufi þetta upp, eins andinn í lampa Aladdíns?

Og hvað ef dómurinn fellur okkur í óhag? Hefur fólk lausn á þeirri stöðu sem kemur upp þá?

Þessi hugsun, ég um mig, frá mér, til mín á eftir að koma okkur í klandur. Og nú eru Steingrímur og Jóhanna dæmd á gapastokk íslenskra stjórnmála, af almenningi sem þá enn og aftur ætlar væntanlega að kjósa íhaldsflokkinn, til þess eins að auka við flórinn í haughúsinu.


Gleymum því ekki hverjir komu okkur í þetta klandur. Það fólk, sem gerði það, kemur ekki til með að losa okkur útúr því. Það verðum við að gera sjálf. Með því að taka ábyrgð á því að hafa kosið vitleysinga í stjórnarráðið. Og þessa vitleysinga vill fólk sjá aftur halda um stjórnartaumana.


Í dönsku vinnunni minni í dag var mér sagt að hundskast heim og borga skuldirnar mínar. Skuldir sem ríkisstjórnin mín lofaði að taka ábyrgð á ef í óefni færi. Nú er komið óefni. Því miður.

laugardagur, febrúar 12, 2011

Tilkynning...

... ef það er einhver hér sem enn les þetta bull í mér, þá veit ég um 2 herbergja íbúð til leigu á Selfossi frá og með næsta hausti. Ef þið vitið um einhvern sem vantar.

Thanx