þriðjudagur, mars 20, 2012

Morgunstund gefur gull í mund..

Þegar fyrsta skíma morgunsins læðir sér innum gluggann, byrjar lítill kútur að bylta sér. Hann teygir fyrst hendurnar út og geispar, opnar svo augun og blikkar þeim nokkrum sinnum. Þar sem myrkvatjöldin ná enn að halda morgunskímunni í skefjum er strákur ekkert að flýta sér að vakna til meðvitundar, hann tekur sér góðan tíma áður en hann bröltir fram af rúmbríkinni og skýst undir sæng móður sinnar. Þannig kúrir hann góða stund þar til fimur kötturinn stekkur uppá kojubríkina og sýndir undraverða takta í jafnvægislistum.

„Sjáðu Ronju mamma, er hún ekki eins og sirkuskisa?“

Jú, mamman samsinnir því með annað augað lokað.

„Við gætum vel stofnað sirkus, þú væri flottur sirkusstjóri“ svarar hún svo og hann vefur handleggina um háls hennar.

„mamma, þú gætir verið kisutemjarinn og ef eg er sirkusstjóri þarf eg mátulega stóran hatt, svartan jakka, hvíta skyrtu og buxur.“

„Já og göngustaf, þú þarft fínan göngustaf með hvítan hnúð á endanum. Kannski gætirðu meira að segja sýnt töfrabrögð“ Mömmunni finnst þetta alls ekki svo slæm hugmynd hjá sér en stráksi er ekki til í þetta.

„Nei eg vil bara vera sirkusstjóri, svo getur Júlía verið trúður og systa rólað í svona stórri rólu og Gunni getur verið hundatemjarinn“.

Strákurinn er sestur upp, grípur Ronju í fangið og er orðinn hugfanginn af þessarri stórgóðu hugmynd sinni.

„Það mega koma fjórir gestir og það á ekki að kosta mikla peninga inn“ heldur hann svo áfram ákveðinn.

„Fjórir gestir? Það er alltof lítið, eigum við ekki að hafa sæti í hring og fá fullt af fólki, þú getur selt miða...“

„... já og nammi“

grípur strákur frammí fyrir mömmu sinni.

„Eg vil selja nammi og svala og svo fá allir blöðrur sem kaupa miða.“

„Þetta er góð hugmynd Krummi, við gætum kannski keypt fíl fyrir alla peningana, til að hafa í sirkusnum? Helga og Kolbeinn gætu verið líka og hugsað um fílinn og kannski kæmi líka kyrkislanga“

Strákurinn fer að hlæja að vitleysunni í mömmu sinni.

„Nei mamma, fílar eru stórir og svo eigum við ekki svona búr undir kyrkislöngu“

„En við gætum haft tívolítæki eða hvað? Svona parísarhjól og klessubíla og við þurfum að hafa spákonu, Katrín gæti séð um það“

Stráksi er orðinn uppverðraður af hugmyndinni, í augum hans eru farin að snúast hringekjur og parísarhjól.

„Við gætum selt candyfloss, eg elska candyfloss“ segir guttinn.

Um leið hringir klukkan, þessi bévítans klukka sem skemmir alla drauma og dregur mann burt frá þessu skemmtilega og inní núið.

„Jæja Krummi, ætli við verðum ekki að fara að klæða okkur“

Strákur er aldrei slíku vant snöggur af stað en er enn með ævintýranlegan glampa í augunum.

Það er stundum alls ekki svo slæmt að vera sex ára.

fimmtudagur, mars 15, 2012

15.mars 2012

Hún......

..............var lítil með svartar krullur og dökk á brún og brá

..............átti þrjá pela og svaf með þá alla, kallaði þá lallakútana

..............átti það til að flækja vísifingur í krullunum svo mamman

varð einu sinni að klippa lokkinn

..............sofnaði stundum með rassinn uppí loft inní fataskáp

..............var fljót að læra að labba

..............svaf uppí mömmubóli meðan lögreglan leitaði

hennar um allan Selfossbæ

..............elskaði Latabæ

..............lærði snemma að baka skúffuköku

..............fékk verðlaun í stærðfræði

..............vill helst sofa með opinn gluggann

..............elskar ekki Justin Bieber en kann þó lögin hans

..............spilar á gítar og fiðlu

..............má ekki missa af Jóa Fel í sjónvarpinu

..............er jólabarn mömmu sinnar

..............og uppáhald stóru systur

..............elskar að horfa á Friends þegar hún fer að sofa

...............þolir ekki hvað mamma hennar á marga ketti

..............vill helst hafa Fahitas í mat alla daga

..............lætur ekki vaða yfir sig

..............hefur einstaklega góða nærveru

..............er dugleg í skólanum

..............er dugleg heima

..............er dugleg alltaf

..............er ótrúlega vandvirk

..............er svo mikið mikið falleg

..............er 16 ára í dag

..............er Júlían mín