föstudagur, júní 23, 2006

Ligg með tærnar upp í loft.....


.... upp í sófa með íðilfagra Spánverja á skjánum fyrir framan mig. Búin að hesthúsa einum banana og svo var hann "sonur" minn svo elskulegur að færa mér Fanta í glas. Þetta er nefnilega lífið! Hrafnkell minn sefur og allir aðrir í sundi nema við Almar sem horfum á fótbolta með misjöfnum áhuga þó. Annars er allt gott að frétta. Sólin skín í heiði og ég nenni ekki að þrífa Búðarstíginn þannig að ég ligg bara í leti. En þar sem ég hef ekki skrifað lengi þá kemur hér þá smá skýrsla.

Bjössi, Júlía og Almar fóru í veiðivötn í síðustu viku. Þau komust í hann krappann, frömdu morð á nokkrum fisktítlum, villtust en skemmtu sér samt konunglega og ætla aftur að ári. Á meðan kúrðum við Helga í vellystingum með litlu krílin, fórum í matarboð, þar sem voru þar að auki saumaðar eitt stykki trúðabuxur og góndum á vídeo. Hún Helga er nefnilega meðlimur í götuleikhúsi þar sem hún leikur trúð í grændoppóttum buxum með axlabönd. Þetta er leikhópur, skipaður meðlimum í áttunda bekk og þau fara um allan bæ að skemmta börnum og öðrum. Þetta kemur í staðinn fyrir unglingavinnuna og fær hún kaup í samræmi við það. Katrín er byrjuð í sumarfríi á leikskólanum og fer núna eftir hádegi á róló hjá Veigu frænku. Hún Veiga frænka er búin að vinna á róló síðan elstu menn muna og allar mínar stelpur hafa nú verið hjá henni.

föstudagur, júní 16, 2006

Föstudagur til fjár....

...... og best að setjast aðeins og krota soldið. Hef ekki verið mjög dugleg, rembist við að skila þessu fjandans húsi og vorkenni sjálfri mér eins og að ég sé eina konan sem hafi flutt og þurft að skila af sér húskofa. En nóg um það.

Rogerinn klikkaði náttúrulega ekki. Alveg magnað að sjá hann og tilfinningin eins og maður hafi dottið inn í tónlistar-mannkynssöguna við að sjá hann flytja þessi lög. Svo er hann ekki eins ljótur eins og "sumir" wannabe töffarar segja ( eiginlega bara einn wannabe töffari), hann minnti mig soldið á Richard Gere. En aldeilis ógleymanlegir tónleikar. Þeim fer fjölgandi idolunum sem við Bjössi höfum fengið að sjá saman. Við byrjuðum á Utangarðsmönnum og svo komu kappar eins og Robert Plant, James Brown og Joachim Cortés. Svo fór ég EIN að sjá Lou Reed en eins og mér hefur verið tíðrætt um vildi hann Björn frekar fara að veiða. Sitt sýnist nú hverjum um það! Síðan misstum við af Nick Cave og Iggy Pop, að ógleymdum sjálfum Bowie. En við bíðum spennt eftir að sjá hver verður næstur í röðinni.

Katrín er komin í sumarfrí á leikskólanum, nú er engin miskunn hjá Magnúsi, á lappir kl átta og ekkert röfl. Kúrimorgnarnir okkar Krumma eru liðin tíð í bili. Helga mín er byrjuð að vinna og er komin með svona mæðu-verkamanna svip. Komin á lágmarkslaun þessi elska og er í hálfgerðu sjokki yfir hvað hún fær lítið fyrir kaupið sitt. En þá er bara að redda sér aukadjobbi.

En þetta er orðið ágætt í bili, er hálf andlaus í rigningunni.


Ljón í stuði með Guði.

fimmtudagur, júní 08, 2006

Back in buisness

Jæja gott fólk, þá er maður mættur á Selfoss. Bara ansi fínt verð ég að segja. Og eftir slagsmál við bilaðar rafmagnsinnstungur og ótengda loftnetsinnstungu ætlar þetta allt að smella. Helga er byrjuð að vinna í unglingavinnunni og Júlía komin í fótboltaskóla og sumarlestur í safninu þannig að allir una glaðir við sitt - svona að mestu :) Það hefur rignt stanslaust síðan að við fluttum "mublurnar" eins og pabbi minn tekur til orða. Hjá honum eru öll húsgögn mublur, hvort sem þær eru nýjar eða eldgamlar og nánast dottnar í sundur. Hjónarúmið fór út um svefnhergisglugggann sem og nánast allt á efri hæðinni. Og á meðan þeir drösluðu þessu út um gluggann á efri hæðinni þá stoppaði rúta við varnargarðinn full að þýskum ellilífeyrisþegum sem horfðu á þetta í forundran og tóku myndir í gríð og erg. En þetta gekk allt saman á endanum, píanoið komst upp stigann í Smáratúnið sem og orgelið, sem reyndar þarf sennilega að leggja aftur í hann niður stigann og upp til mömmu á þriðju hæð en þar er nú lyfta sem betur fer.

En nóg um flutninga. Við nefnilega tókum okkur frí frá þeim og skelltum okkur á tónleika. Já Bubbi kallinn er flottur fimmtugur. Alveg hreint ógleymanleg upplifun og ótrúlegt að kallinn skuli geta fyllt höllina ekki bara einu sinni heldur tvisvar á sex ára tímabili. Þessir tónleikar slógu samt ekki út Utangarðsmenn en fóru langt með það samt. Og svo er að skella sér á Rogerinn í næstu viku.

En það er víst komin tími til verka,

Until next time

Ljón í Smára

fimmtudagur, júní 01, 2006

Fermingarslætur