fimmtudagur, júní 16, 2011

Hótel Selfoss góða kvöldið....

Það er alveg merkilegt hvað dagar geta verið fjölbreyttir en þó allir eins. Á vinnustaðnum mínum vinna konur (og karlar) sem í áratugi hafa gengið sama hringinn í sótthreinsuðu herbergi. Fyllt út eyðublað eftir eyðublað, stimplað og merkt eftir kúnstarinnar reglum. Alltaf sömu handtökin, ár eftir ár. Samt eru þessar konur glaðar (og karlarnir líka) og skiptast á fréttum um börn og barnabörn, veikindum, prjóna og mataruppskriftum og svona mætti lengi telja. Dagurinn byrjar yfirleitt á rólegum nótum en þegar 2 tímar eru liðnir af vaktinni verður skyndilega allt vitlaust og maður þarf að hafa sig allan við.


Þetta er ágætis vinna. Og afskaplega tilbreytingarlaus. Þó hef eg tekið eftir því að nýliðum hefur þótt erfitt að aðlagast þessum klikkuðu törnum sem koma þrisvar á vakt. Eg hef hinsvegar gaman að þessum törnum sem vara í hálftíma til klukkutíma í senn. Og það verður bókstaflega allt crazy. Eg var nefnilega svo heppin að hafa fengið gríðarlega gott vinnustaðauppeldi á sínum tíma. Á margar góðar og ljúfar minningar frá mínum fyrstu sporum í vinnunni.

Hótel Selfoss var góður vinnustaður fyrir 15 ára krakkaskratta eins og stundum var sagt. Hótelstjórinn tók sveitastelpunni og vinkonu hennar með jafnargeði sem mér er enn þann dag í dag óskiljanlegt. Við Brynja vorum langt í frá auðveldar. Við vorum kjaftforar frekjudollur þetta fyrsta sumar, það verður nú bara að segjast eins og er, en aldrei í vondu skapi og alltaf til í aukavaktir ef að þær voru í boði sem var frekar oft.

Á efri hæð hótelsins réðu svo ríkjum konur sem höfðu það eitt sameiginlegt umfram annað, að hangs og droll í vinnunni var ekki liðið. Þessar konur stormuðu um sali hússins eins og hvirfilbylir og það gustaði af þeim. Stundum svo mikið að viðskiptavinirnir fuku með þeim inní eldhús. Og barvinnan þurfti að ganga hratt, því fleiri glös sem voru seld þeim mun meiri gróði. Þarna lærði maður að auka við vinnuhraðan þegar álagið var sem mest því ekkert var eins þreytandi eins og einstaklingur sem vinnur alltaf á sama hraða, hvort sem það voru 10 manns í húsinu eða 500. Maður bar virðingu fyrir þessum konum Þær föndruðu kokteila og fordrykki með annarri hendi á meðan brauðið var skammtað með hinni.

Þarna lærði maður að láta hlutina ganga. Nota ferðirnar inn og út úr sölunum. Fara helst aldrei tómhentur. Reyna að nýta sporin. Þessar konur höfðu gríðarlega skipulags hæfileika. Öllu þurfti að púsla saman svo vel færi og enginn yrði ósáttur. Og stelpuskrattinn skaust salina endilanga með öskubakka og sprittkerti og svo seinna, súpur og steikur, kaffi og koníak. Veitingahúsavinna er skorpuvinna og pásur ekki teknar eftir klukkunni. Maður mátti þakka fyrir að geta pissað með skikkanlegu millibili.

Núna, sem og svo oft áður, nýt eg góðs af þessu uppeldi sem eg fékk. Eg hendist á milli véla og passa að nota allar ferðir til nýta fótsporin. Og á milli þess sem eg skrifa, pakka og hendist með bakka og kassa, snýti eg róbótunum svo ekkert stoppi. Því segi eg það af minni reynslu, fyrir unglinga sem eru að stíga sín fyrstu spor á vinnumarkaðinum þá er veitingahúsavinna er góður grunnur fyrir alls kyns atvinnu seinna meir.

laugardagur, júní 04, 2011

Danmörk - Ísland

Enn og aftur viðrar vel til flutnings. Sumarið er minn tími til að henda ofan í kassa og halda á vit ævintýra eins Lína Langsokkur myndi orða það. Þó er eg kannski stödd í mínu mesta ævintýri hingað til, einmitt núna.

Í skjóli þeirra aðstæðna sem sköpuðust heima á Íslandi í fyrra, var tekin sú ákvörðun að halda yfir hafið, nema land á erlendri grundu og mennta sig

Nú er liðið tæpt ár. Námið hefur látið á sér standa, ennþá hefur ekkert hér í Danmörku rekið á mínar fjörur sem mér hefur fundist vert að skoða. Og með vorskipinu frá Íslandi barst boð um að hefja nám við háskólann á Bifröst næsta haust. Mínu ævintýri erlendis er þó ekki þarmeð lokið, heldur tekur það smá útúrdúr með viðkomu á fróninu fagra.

Mér hefur liðið vel hér í Danmörku. En eg er afskaplega mikill íslendingur. Og finn það best hér úti, hvað eyjan mín togar í mig.

Eg hef alltaf talið mig vera nokkurskonar hvergiland. Þá meina eg, að mér hefur aldrei fundist eg tilheyra neinum stað. Eg er jú alin upp í sveit en sem krakki var oft sagt við mig að sveitin mín væri engin sveit, þar væru engar skepnur. Þetta væri meira svona eins og að festast í sumarbústaðaferð. Því bjó ég í sveit en var ekki úr sveit, ef þið skiljið. Síðan flutti eg til Reykjavíkur og svo á Selfoss en var ekki reykvíkingur og ekki selfyssingur. Hér úti í Danmörku fann eg upprunann. Hann er ekki bundinn neinu bæjarfélagi eða hrepp, heldur kannski Íslandi sem heild. Mér finn nú að eg tilheyri fjöllunum heima, mýrinni, íslensku rigningunni og farfuglunum. Hér í danaveldi syngja fuglarnir sama sönginn og eg skil ekki þeirra söng. Eg sakna tjaldsins og spóans og því sem þeir segja mér á hverju vori.


Eg sakna lóunnar sem með harðfylgi syngur inn vorið á hverju ári og gefst aldrei upp, þó að á móti blási ísköld snjókorn í einhvern tíma. Eg sakna þó mest hrafnsins sem vakir yfir mér á húsaþaki á ísköldum vetranóttum jafnt sem björtum sumarnóttum og býður mér góðan dag að morgni með kátlegu krunki. Eg sakna fjallanna og ilmsins af hinum alræmda sinueldi, kyrrðarinnar og stillunnar á fallegu íslensku vorkvöldi.


Þetta allt er minn uppruni. Og meira að segja mýrin með öllu sínu lífi, þegar að grænir sprotarnir stingast upp úr þýfinu og litlu lömbin sprikla um túnin í kring. Íslenskt vor iðar allt af lífi á meðan danskt vor læðist upp að manni og hverfur svo. Danskt vor er nákvæmlega eins og danskt haust. Kalt, blautt og alþakið sölnuðum laufblöðum sem fjúka um í þessu endalausa roki sem ætlar engan endi að taka.

Svo allt í einu, án þess að maður átti sig á, er komið sumar. Þegar maður er enn að bíða eftir vorinu. Öll tún eru orðin iðagræn, trén komin í fullan blóma en hvergi neitt kvikt að sjá, engin lömb, né folöld. Og manni finnst sem maður hafi misst af einhverju. Og þetta er svo ólíkt og framandi því sem maður þekkir. Meira að segja anganin af skítadreifurunum sem dreifa þessum lífræna áburði á öll tún hér í Danmörku er framandi.

Söknuðurinn eftir Íslandinu mínu er ljúfsár og þó eg eigi eftir að nema land seinna meir á erlendri grundu veit eg nú hver eg er og hvaðan eg kom og hvers ber að þakka.

Eg kveð danaveldi í júlí og veit að hér á eg aldrei eftir að búa aftur. Borgarfjörðurinn bíður mín í bili með allri sinni fjallafegurð. Og eg get verið viss um að hrafninn er strax farinn að undirbúa komu mína heim.