þriðjudagur, ágúst 15, 2006

dududuruddududu

jamm, enski boltinn byrjar nefnilega í dag með leiknum um góðgerðarskjöldinn. Hann Hjalti var svo elskulegur að koma símamálum okkar í samt lag og því er allt klárt fyrir leikinn góða. En nú ber svo við að liðin okkar Bjössa eru fjarri góðu gamni því þeim tókst ekki að landa titlinum í vor né 2. sætinu, þannig að spennan á heimilinu verður í lágmarki. Og þar sem liðin sem mætast eru hvorug í uppáhaldi hjá okkur hjónum þá verður þetta eitthvað skrautlegt. En svo tekur alvaran við um næstu helgi. Við erum að spá í að skella okkur til Englands í vetur í svona tvöfalda fótboltaferð. Og þá þurfa bæði liðin að spila heimaleiki og helst ekki sama daginn þar sem tími til að hlaupa frá Manchester til London eða öfugt er ekki nægur og þar stendur hnífurinn í kúnni. Eftir að hafa legið yfir leikjaplani vetrarins held ég að það hittist aldrei á að Arsenal og Manchester eigi bæði heimaleiki sömu helgina nema þá að þau séu bæði að spila á laugardeginum. Nú myndi nú kannski einhver stinga upp á að fara bara á United-Arsenal en þá er alltaf annað okkar í lífshættu, fyrir utan rifrildið sem yrði um hvort ætti að fá heimaleikinn. Þannig að það endar sjálfsagt með tveimur fótboltaferðum. Eða þá að fara á leik í Meistaradeild Evrópu. Arsenal-Barcelona er nátturulega "once in a lifetime opportunity" þannig að þetta er allt opið. Kemur í ljós þegar dregið verður í riðla í meistaradeildinni.
En að öðru, eðalhjónin að austan voru hér í gærkvöldi. Katrín fékk sinn skammt af athygli frá langafa sínum. Alveg hreint frábært að sjá þau saman. Og eftir mikið át og stunur og dæs var gripið í spil. Þar börðust þeir fyrir lífi sínu Ástþór og Björn en urðu að lúta í lægra haldi fyrir þeirri magnþrúngnu spilakonu að austan sem hreinlega rúllaði okkur upp og fór létt með.Nú líður að brottför hjá Júlíu minni. Hún lét sig hafa það að þurrka rykið af fiðlunni svona viku fyrir brottför og kíkja aðeins á nóturnar sínar og mesta furða hvað hún "sándaði" vel eftir allt fríið.
En talandi um sánd. Eins og þið sum ykkar vitið þá var Bjössi spilandi í hljómsveit um það leyti sem hann dúkkaði uppá borð til mín. Hljómsveitin hans hét Fuss og þeir voru fjórir í henni, spiluðu frekar þungt metal, blues eitthvað, ekki vænlegt til dansiðkunar. En meðal meðlima sveitarinnar var hann Ian og var hann þeim sem honum kynntust ógleymanlegur karakter. Hann fluttist svo til Usa og sveitin gliðnaði í tvennt. En viti menn, Ian er væntanlegur til landsins eftir viku, heimtaði að bandið yrði kallað saman og bókað gigg! Og þeir ætla sem sé að spila á Rauða Húsinu á Eyrarbakka föstudagskveldið 25. nk.! Þannig að nú mæta allir sem vettlingi geta valdið til að berja augum þetta band sem hefur ekki spilað saman í fimm ár og ætla að troða upp nánast óæfðir. Heppni ef mér tekst að grafa upp einhversstaðar lagalistann þeirra frá því í den. En tilhlökkunin er mikil hjá þeim félögum sem og kannski smá skrekkur.
En ég var víst að tala um hana Júlíu mína, hún er sem sé á leið útí heim með handfarangur í glærum frystipoka nr. 5! Og daginn sem hún fer út kemur hún Helga mín heim eftir þriggja vikna (allavega ennþá ) velheppnaða námferð til Englands. Ekki veit ég nú hvað hún hefur lært mikið þarna úti þessi elska en hún er reynslunni ríkari. Og lendir sjálfsagt í því að þurfa að borga glás í yfirvigt ef þetta vesen á flugvellinum þarna úti verður ennþá við lýði.
En þetta er nóg í bili
Ljón (duruddudurudduduru) ( sko stefið á undan enska boltanum)
(skrifað sunnudaginn 13. s.l. en var ekki birt fyrr sökum tæknierfiðleika)

miðvikudagur, ágúst 02, 2006

jahérnahérmaðurminn

Hún Helga mín er í Englandi, stödd þessa stundina í einhverri "kringlu" að versla og það er þvílikt stuð hjá henni en við söknum hennar bara, tárumst yfir Friends því það finnst henni svo gaman að horfa á. En hún er víst þarna til að læra ensku í enskuskóla í þrjár vikur og það finnst okkur hérna heima alveg geðveikt langur tími.

Samúð okkar er hinsvegar hjá heimilisfólkinu á Húsatóftum sem misstu allt sinn viðurværi í bruna svo ég tali nú ekki um allan búfénaðinn sem fórst. Alveg ferlegt hvað bændur geta verið aftarlega á merinni varðandi brunavarnir. Ekki einn reykskynjari var í fjósinu hvað þá meira.

Hrafnkell minn er farinn að rúlla hér um öll gólf systur hans til mikillar skemmtunar. Henni Katrínu finnst þetta nú ansi furðulegur ferðamáti hjá drengnum.

Verð að hætta, skyldan kallar

Ljón