miðvikudagur, ágúst 29, 2007

án titils....

Jæja gott fólk

undanfarið hefur borið á einkennilegri tregðu til bloggskrifta hjá konungi dýranna. Ég hef hins vegar stúderað soldið skrifin mín á þessarri síðu sökum þess að ein góð vinkona mín hafði áhyggjur af að ég væri alltaf í vondu skapi. Ja, það er bara það, sagði afi gamli í Vatnsholti alltaf þegar honum voru sögð undraverð tíðindi.

En ég held að það sé best að ég skýri þessi bloggskrif örlítið nánar.
Frá því að ég var lítil hefur mér þótt gaman að skrifa, ég skrifaði sögur og ljóð, framleiddi þetta í stórum stíl og hún mamma mín á nú eitthvað af þessu ennþá, til hvers veit ég eiginlega ekki. Þetta eru sona ómerkilegar smábarna sögur af hetjum á hestbaki og þess háttar. Maður hálf skammast sín við að lesa þetta, skriftin stór og skökk og skæld. En allavega, þetta breyttist með unglingsárunum, fyrstu ástinni og eitthvað og ég fann góða útrás við að krota skammaryrði á blað ef mér var misboðið SEM VAR OFT allavega á unglingsárunum. En þetta hefur ekkert breyst, ég sogast að tölvunni ef ég er pirruð eða eitthvað óhress, með þunglyndis einkenni og fyrirtíðaspennu og þótt ég segi sjálf frá, þá skrifa ég miklu betur ef hugurinn er þungur og nóttin dimm. Þegar kátt er í koti sé ég enga ástæðu til að hanga við skriftir og láta vorkenna mér, þess vegna er fínt að ég bloggi sjaldan, það sýnir hvað ég er annars sérlega geðgóð og í miklu jafnvægi. Ha Bjössi....! Þó verð ég að viðurkenna að talvan hefur verið einstaklega lokkandi undanfarið.

Ég er byrjuð að vinna, farin að afgreiða í Sensí á Selfossi, sem er svona pæjubúð enda er ég pæja nr 1. Þar af leiðandi er Hrafnkell byrjaður á leikskóla og verð ég nú bara að segja að það er það erfiðasta sem ég hef gert á ævinni hreinlega. Það liggur við að ég gráti þegar ég skil hann eftir svona lítinn, varla farinn að segja stakt orð nema það sem ég ein skil. En svona er þetta, lífið heldur áfram að tikka, Helga er að verða 16 og gerir mig eldri með hverjum deginum.

Annars er ekkert að frétta, ég er reyndar að fara til hennar Heiðu í Danaveldi eftir viku og það sem verra er að ég verð að skilja Björninn eftir heima þar sem hann fær ekki frí í lögregluskólanum! Ég er svo stressuð yfir þessu, þarf að taka lest og sona og kvíði því mest að vita ekki hvar og hvenær ég eigi að fara út úr lestinni þannig að ég eyði öllum fjórum dögunum í að hringsóla í lest! En mest langar mig að hafa Bjössa minn með.

Jæja en ég er hætt, er í of góðu skapi til að skrifa meir.

Að lokum, þið sem fenguð skrýtið jóla sms í morgun þá var það frá mér:) Já elskurnar, ég er farin að skipuleggja hópferð á jólahlaðborð. Við ætlum að fara 1. des og eftir mikla spekulasjón komumst við tengdamóðir mín að því að það eru þrír staðir sem koma til greina. Gott væri að fá comment á hvort og hvað ykkur líst best á. Því fleiri sem geta mætt, því betra. Það er þá nógur tími til að afbóka sig ef eitthvað breytist. Staðirnir eru: Skíðaskálinn í Hveradölum, Hótel Geysir og Hótel Loftleiðir. Ekki er ráð nema í tíma sé tekið!!


Bless í bili

Ljón
p.s. Til hamingju með afmælið Einsi bró.......

fimmtudagur, ágúst 16, 2007

Bleeeesuð...........

Jæja, nú árið er liðið að allt það, en ég var klukkuð, svona svipað og klikkuð eða þannig sko......

1.Er alveg skelfilega léleg húsmóðir, öllum til mikilla ama. Tek til einu sinni á ári, svona 5 mínútum fyrir jól.
2. Er stjórnsöm og ráðrík úr hófi fram, sérstaklega við það fólk sem stendur mér næst.
3. Er með söfnunaráráttu, safna kjólum þó ég hafi engin not fyrir þá og fari jafnvel ekki í þá nema bara einusinni. ( hins vegar eru kjólarnir mínir geðveikt flottir:))
4. Ég er svakalega pólitísk en hef litla útrás fengið fyrir það núna í seinni tíð, sem mér finnst reyndar soldið leiðinlegt. Ég er meðlimur í Samtökum hernaðarandstæðinga sem og Sósíalistafélaginu.
5. Ég hef orð á mér fyrir að vera hvöss, bæði á svipinn og í tilsvörum en skrifa það algjörlega á föðurættina, get ekki að því gert að hafa erft genin hans föður míns, á erfitt með að höndla rolur.
6. Ég þoli illa skipulagsleysi, er afskaplega skipulögð ef ég vill það en þarf að taka á óstundvísi.
7. Ég hef mikla þörf fyrir að skilgreina hluti og fólk og er stundum skömmuð fyrir að reyna að troða mér inní hausinn á fólki, hvað svo sem það nú þýðir.
8. Ég er óforbetranlegur daðrari og finnst það bara allt í lagi, daður er það sem gefur lífinu lit en ekki Harpa Sjöfn!

Svona er Liljan í dag og ég varpa boltanum yfir á Rögnu frænku, Júlíu Sif, Heiðu gellu, Guttu og Denna.

Ljónið í haga