fimmtudagur, júní 05, 2008

Shake your body baby.........

Það liggur í loftinu eirðarleysi og ókyrrð. Selfossbær er hálflamaður og það er undarlegt andrúmsloft á götum úti. Fólk bíður eftir þeim stóra. Hvenær skyldi hann koma og hvar. Fimmtudagurinn sem gaf fögur fyrirheit með sól og stillu endaði í fári.

Ég hafði verið uppi í tröppu að verðmerkja Pleymó. Prílaði niður stigann til að afgreiða eina konu sem vildi kaupa Legó handa barnabarni sínu sem beið með afanum fyrir utan búð. Búðin hrundi saman fyrir framan augunum á mér og konan stökk gólandi út og rak manninn inn í óreiðuna til að borga. Ég rak hann aftur út og skellti í lás. Gæludýrabúðin við hliðina flaut í vatni og gullfiskum og litháanska konan sem vinnur í búðinni á móti fékk taugaáfall.

Ég þaut heim, vissi af Júlíu heima og hélt hana eina en hún stóð úti á hlaði er mig bar í garð og þar stóðu með henni tvær bestu vinkonur hennar. Konan í næsta húsi stóð í innkeyrslunni sinni hágrátandi með tveggja ára gamlan son sinn í fanginu. Tengdafaðir minni var hvergi nálægur en hann hafði farið að huga að dætrum sínum, Jóhönnu og Grétu. Inni beið mín eyðilegging, stellið mitt var þó á sínum stað í gamla skápnum hennar langömmu í Syðri-Gróf.

Það var allt í rúst, ég skellti stelpunum í bílinn og forgangsraðaði ferð minni. Annarri vinkonunni var skutlað heim og í sömu götu býr amma hans Bjössa. Gamla konan stóð útá stétt, heimilið hennar illa leikið en slapp þó betur en á horfðist. Í útvarpinu var verið að segja fólki að vera utan dyra og að koma börnum burt úr plássinu. Ég sótti krílin sem biðu skelkuð á leikskólunum og það varð úr að börnin hópuðust inní afabíl og hann forðaði þeim ásamt langömmunni til Reykjavíkur.

Það sem eftir lifði kvölds fór í að taka stöðuna á hinu og þessu, húsið hennar Ingu sys var mannlaust og þar var brotið og bramlað, húsið hans Einsa bróður líka mannlaust en slapp að mestu við brot og braml. Ég tek það fram að systir mín var stödd í Kanada, hún hefur einu sinni áður farið til Kanada og þá kom skjálftinn árið 2000. Hún ætlar aldrei þangað aftur. Mamma og pabbi kúrðu um nóttina í fellihýsi Bubba bróður, Grænumarkarblokkin hafði verið rýmd og þau mátti ekki snúa aftur fyrr en morguninn eftir. Ég fékk leyfi til að sækja lyfin hans pabba og aðkoman í íbúðinni þeirra var ekki glæsileg, eldhúsið í rúst og sultugrautur útum allt. Öll þessi heimili sem að okkur standa áttu þó eitt sameiginlegt. Þó að aðkoman hafi virst slæm og sumstaðar skelfileg voru skemmdir og tjón óveruleg, ég held að ekkert okkar hafi tilkynnt tjón til tryggingafélags. Börnin mín minnstu sluppu við að þurfa upplifa eyðileggingar á heimilinu okkar og allt sem mér var kærast úr mínu innbúi er heilt og sömu sögu hafa foreldrar mínir og systkini að segja.

Selfoss er laskaður en þó uppistandandi og þó að fólk sé hrætt þá stendur það beint í baki. Og maður finnur það sterkt að jarðskjálftaógnin hefur fylgt manni frá upphafi, þó maður hugsi það ekki dags daglega er það í undirmeðvitundinni að skjálftinn getur komið þá og þegar og þegar hann reið af á fimmtudaginn kom hann ekkert á óvart. Ég er ekki hrædd við jarðskjálfta þó mér sé að sjálfsögðu ekki vel við þá. Allt starf sem var unnið af lögreglu og björgunarsveitum var til fyrirmyndar og ég er stolt af bænum mínum og nágrönnum, fólk hélt ró sinni og yfirvegun. En maður er ekki búin að jafna sig, ég er eirðarlaus og á erfitt með að staldra við, finnst ég þurfa að vera á sífellu iði eitthvert..........