þriðjudagur, september 28, 2010

jæja... nú skal skrækur skjálfa........

Haustið hefur alltaf verið minn uppáhaldstími. Þegar skammdegið skellur á er tími kertaljósa og ljóðabóka og gott að fara snemma í bólið. Haustið var líka skemmtilegur tími í sveitinni forðum. Það var svo undurgott að vera lítil stelpa í Vatnsholti. Þá var veröldin ekki stór og ekki mikið sem gat truflað. Síminn lét lítið fyrir sér fara og útvarpið í eldhúsinu malaði notalega, alltaf á sama styrk. Og það var svo skrýtið að það voru sömu raddirnar í útvarpinu hennar ömmu og í útvarpinu í eldhúsinu heima. Merkilegt. Haustinu fylgdi angurvær blær. Hlaðvarpinn varð eitthvað svo grár og gugginn og tjaldurinn kvaddi með fögur fyrirheit um endurkomu að vori. Síðan fór að snjóa og í minningunni kom snjórinn mjög fljótlega. jafnvel í byrjun október. Þá gat maður stundum rennt sér á þotu ofan af hlöðuþaki og langt útá tún. Og ef maður var heppinn þá botnfraus vatnið og þá var hægt að renna sér á skautum bakkanna á milli. Lífið var ekki flókið í þá daga. Í bakgrunni þessarra dásemdartíma voru mamma mín og pabbi. Og ég sagt með sanni að betri bakgrunn hefði ég ekki getað átt. Þau sköpuðu grundvöll sem lítil stelpa gat byggð sína veröld á og sú veröld var sönn. Það var gerður skýr munur á réttu og röngu og ekkert sem ég þurfti að hafa áhyggjur af. Það eru forréttindi, sem ekki öll börn hafa hlotið, að geta vaknað á laugardagsmorgni, vitandi, að frammi í eldhúsi er hún mamma, hlustandi á útvarpið að leggja drög að hádegismat. Og pabbi farinn út, að grúska í skúrnum sínum. Allir á sínum stað, alltaf, alla daga, allt árið um kring. Alltaf biðu pabba einhver verkefni, bílar, traktorar og allskyns véladót. Hans ástríða voru bílarnir hans, pabbi minn var haldinn ólæknandi bíladellu. Ef það snjóaði í kaf var hann rokinn út “að kanna færðina” þó hann hefði ekkert erindi og sæti pikkfastur. Þá var bara að moka sig upp og halda áfram, sigra skaflana. Bílskúrinn var hans paradís á jörðu og þar inni var alltaf gott að vera. Þar suðaði líka stundum útvarpið, fermingarútvarpið hennar Ingu systur ásamt hljóðum úr hinum og þessum tækjum. Ef hann þurfti að rafsjóða varð ég að fara út á meðan, líka ef hann þurfti að nota slípirokkinn. Þessi tæki voru of hávær og rafsuðan óholl litlum augum. Og hann sá líka til þess að nefið mitt kæmist ekki ofan í dósina með Jötungripinu, eins og mér fannst nú lyktin góð. Hann var snillingur á sínu sviði. Smíðaði allskyns vélar og dót. Lagaði það sem var bilað, alveg sama hvað það var. Stundum rauk hann, í miðju kafi, fyrirvaralaust útí bíl og brunaði niður veginn til Stjána frænda að fá lánað eitthvað verkfæri sem Stjáni átti eða ná í eitthvað sem hann hafði lánað Stjána eða jafnvel að “diskútera” einhverja ólukkans bilun sem hrjáði einhverja vél. Stundum komu þeir báðir til baka og svo grúfðu þeir sig, bræðurnir, ofan í vélina, svarthærðir, stundum grútskítugir og nánast alltaf angandi af smurolíu sem að mínu mati er besta lykt í heimi. Alltaf mátti ég skottast í kringum hann og aldrei sussaði hann á stelpuskottið þó hún hafi mikið þurft að spyrja og tjá sig um hitt og þetta. Þó sagði hann eitt sinn að það væri ekki vitlaust að setja á mig hljóðkút. Á kvöldin átti hann það til að grípa í nikkuna. Hann hafði mikið gaman af harmonikkutónlist og þá sat hann alltaf á stól á miðju gólfi, í herbergi þeirra mömmu og spilaði. Mér fannst hann geta allt, kunna allt og vita allt, fyrir mér var pabbi minn sterkastur og bestur allra pabba. Pabbi hafði sterkar skoðanir og var ekki feiminn að láta þær í ljós. Hann átti það til að þruma yfir manni ef honum mislíkaði eitthvað í veröldinni. Það sem honum fannst, fannst mér líka. Og það sem mér fannst, fannst honum yfirleitt líka. Við vorum nánast alltaf sammála. Þannig var það einfaldlega. Hann var heiðarlegur maður sem stóð skil á sínu, hafði gott orð á sér sem skilar sér margfalt til okkar barnanna hans.

Nú er ég orðin “stór” samt er ég eiginlega bara lítil, pabbastelpan. Og enn er pabbi minn bestur allra pabba. Og enn er það ekkert sem mér finnst hann ekki kunna, vita eða geta. Það hefur alltaf verið nóg fyrir mig að vera í návist hans þá hefur mér alltaf fundist að ekkert slæmt gæti gerst. Þó hann væri kominn á efri ár og heilsunni farið að hraka var það ennþá þannig, þvílíkur var styrkur hans. Fyrir mér er hann höfðingi í allri merkingu þess orðs. Og svo ótalmargar spurningar sem ég átti eftir að spyrja.

Nú hefur pabbi minn kvatt þennan heim. Sem lítil stúlka trúði ég að til væri himnaríki. Ég trúi því enn og vona að nú sitji þeir saman feðgarnir, pabbi og afi og skeggræði um gamla tíma og nýja. Og ef einhver sanngirni er í þessu þá hljóta að vera til bílar í himnaríki. Kannski hefur almættið brætt úr nýja bílnum sínum og því hefur almættið vantað góðan mann til að skipta um vél og koma bílnum í gegnum skoðun!