miðvikudagur, desember 29, 2010

Púst....


Það er jólalegt um að litast í Odense. Þykkur snjór yfir öllu, stjörnubjört kvöld og frostkalt. Samt vantar norðurljósin og heimatilbúnu ljósadýrðina sem einkennir Ísland í desember. Danir eru hógværir í jólaljósadýrðinni. Það sést ein og ein jólasería í glugga, einlit og þá glær og einstaka jólatré skarta ljósum í görðum landsmanna. Hins vegar eru íslendingarnir samir við sig og hér úti er hægt að skrásetja búsetu þeirra eftir því hvar marglitu ljósin skína. Í mínu húsi eru 6 íbúðir og mínir gluggar þeir einu, sem skarta marglitum ljósum. Og við söknum ljósadýrðarinnar heima.


Það er reyndar margs að sakna í byrjun desember. Ég er rík af jólahefðum. Allir dagar hafa sitt hlutverk í aðventunni og þar skipar fólk sinn sess. Fólk, sem nú er fjarri góðu gamni. Aðventan gekk jú í garð með tilheyrandi smákökuilm en það má segja að það hafi líka verið það eina sem hélt velli í jólaundirbúningi húsfreyju. Annað var látið sitja á hakanum. Kannski var því um að kenna að næturvaktir tóku sinn toll og varla tók því að byrja á einhverju um miðjan dag þegar næsta vakt tók við kl tíu um kvöld. En allt hafðist þetta nú með góðra vina hjálp.

Og þorláksmessa gekk í garð. Fyrsti hátíðisdagurinn minn og sá sem er í raun í mestu uppáhaldi hjá mér. Jólakveðjurnar mölluðu í nettengdu útvarpinu, hangikjötið og sviðin voru soðin og gólf skúruð. Júlía mín undirbjó jólasúpuna góðu og á hún heiðurinn alfarið að henni sem og jólaísnum. Ég lét mér nægja að hringja bara í móður mína en hana hef ég heimsótt á hverju þorláksmessukvöldi í ein 16 ár. Og hún var klár í slaginn, beið jólanna og pabbi minn sveif yfir vötnum hjá okkur öllum held ég þetta þorláksmessukvöldið. Ég skil núna hvað prestar eiga við þegar sagt er í jólamessu “að minnast látinna ástvina” ég hef svosem aldrei lagt eyrun við þessu sérstaklega. En ég held að hann pabbi minn hafi ekki farið úr huga mér öll þessi jól. Hann pabbi var nefnilega mikið jólabarn. Eins og hún mamma. Þaðan hef ég þetta, að vilja hafa jólin svona, en ekki hinsegin og vera fastheldin á siði og venjur. Ekki gera þetta bara einhvernveginn. Og það var svo skrýtið að fá jólakort og jólapakka “bara” frá mömmu en ekki þeim báðum. Þó ég sé þó orðin þetta gömul og þó að pabbi hafi verið orðinn þetta gamall þegar hann dó, og heilsu farið að hraka, er ég búin að vera lítil stelpa sem saknar pabba síns á jólunum. Og það er svo skrýtið að ég sakna hans eins og hann var þegar ég var lítil og þær minningar, sem eru svona gamlar, eru þeim yfirsterkari sem nýrri eru. Og ég brosti út í annað þegar ég blandaði mér öli í glas, ein í eldhúsinu á aðfangadagskvöld og sýnin varð svo skýr. Hann stóð í eldhúsinu heima í Vatnsholti, búin að blanda í ölkönnuna sérstöku, hellti í glas og bað mig að smakka. Og ég smakkaði, lítil í jólakjól og fannst blandan fullkomin. Hann setti alltaf bæði kók og pepsi útí maltið og appelsínið. “Á ég að setja meira pepsí?” spurði hann, neibb svaraði stelpan og þar með var það klárt. Allskonar svona minningar hafa poppað upp við minnsta tækifæri. Og þegar hún Katrín mín var orðin óþolinmóð eftir matinn á aðfangadagskvöld, eftir að pakkar yrðu opnaðir og spurði hvort ekki ætti að fara að byrja á þessu, svaraði ég að hans sið “eigum við ekki að fresta því þar til á morgun?”


Og jólin liðu, í þægilegheitum, söknuði eftir þeim sem heima voru, gleði yfir þeim sem hjá mér voru og kvíða yfir komandi dögum. Því að á þriðja í jólum var lagt af stað til Kóngsins Köbenhavn. Börnin flugu til Íslands og eru ekki væntanleg heim hingað fyrr en eftir þrettánda. Og því eru það einkennilegir jóladagar sem nú fara í hönd og kvíði er í hjartanu fyrir væntanlegum áramótum. Það er skrýtið að sitja í jólastemningunni og engin börn og skrýtið að halda jólin og sjá Helguna mína ekkert yfir alla hátíðina. En í staðinn fyrir að velta mér uppúr því reyni ég að hugsa fram í tímann og töluvert mikið fram í tímann. Þó það hafi verið fámennt en góðmennt hjá mér nú á jólum sé ég vonandi fram á mikið fjör þegar fram líða stundir. Ég er búin að taka loforð af mínum börnum að flykkjast til mín á jólum þegar að þar að kemur. Þá verður fjölmennt í koti með væntanlegum “vonandi” tengdabörnum og líka væntanlegum “vonandi” barnabörnum, húllumhæ og stuð :) Þangað til reyni ég að njóta kyrrðarinnar á meðan hún gefst.


Gleðileg jól elskurnar og takk fyrir allt gamalt og gott :)


L