þriðjudagur, mars 15, 2011

Það er sagt að alkahólistum sé hollt að rifja upp söguna sína endrum og eins. Til að minna sig á og gleyma ekki hvers virði það er að hafa geta snúið við blaðinu. Það eru ekki bara alkarnir sem hafa gott að smá upprifjun. Við “hin” höfum öll eitthvað til að rifja upp, gott og slæmt. Dagurinn í dag hefur farið í upprifjanir hjá mér. Því að í dag eru 15 ár liðin frá einu af mínum helstu afrekum, Júlía mín leit dagsins ljós í fyrsta sinn.

Ég hafði farið frekar seint að sofa, hafði verið með fólk í mat og þurfti að ganga frá í eldhúsinu. Ragnar fór á næturvakt og ég vaknaði því ein í bólinu um 4 leytið um nóttina við stingandi verk. Þegar annar fylgdi i kjölfarið, hringdi ég upp á sjúkrahús. Mér var sagt að taka því bara rólega, ekkert lægi á, þannig að eg reyndi að kúra mig niður og láta tímann líða.

Uppúr kl 5 var ég hinsvegar búin að fá nóg, skipaði Ragnari heim af vaktinni og saman fórum við uppá spítala, með tösku og bangsa og tilbúin í slaginn. Það var hálfgert ástand á fæðingardeildinni, eg var 4. konan sem kom þessa nótt og ljósmóðirin alveg búin á því. Það var því sjúkraliði sem tók á móti mér og kom mér fyrir en Ragnar fékk að fara heim aftur þar sem langt var á milli verkja.
“Þetta kemur ekki á minni vakt, gæti verið svona í kringum hádegið eða jafnvel seinna.” sagði ljósmóðirin og ég sá fram á langa klukkutíma framundan.


Klukkutíma seinna var hins vegar farið að draga til tiðinda, Ragnar var kallaður til og verkirnir orðin frekar harðir. Þar sem enn var nóg að gera hjá vakthafandi ljósmóður var önnur kölluð til en svo heppilega vildi til að ljósmóðir úr Kópavogi gisti eitt sjúkrarúmið þar sem hún átti morgunvakt. Var blessuð konan ræst og með stýrurnar í augunum mældi hún útvíkkun hjá mér.
“Þetta fer að styttast” sagði hún. Eg heimtaði deyfingu, mundi svo vel eftir sprautunni góðu sem ég fékk þegar Helgan mín kom í heiminn en Jóhanna ljósmóðir var ekki á þeim buxunum.
“Þetta gengur nú svo ljómandi” sagði hún og við það sat. Eg hvessti á hana augun, alveg hreint að drepast en þagði þunnu hljóði.

“Get eg ekki bara hætt við þetta?” spurði eg svo.
“Nei ætli það se nú hægt” Johanna ljósmóðir brosti fallega sem gerði mig enn ergilegri yfir því rugli að geta ekki gert þetta sársaukalaust.
“Geturðu ekki allavega gefið mér Panodil??”
Við þetta flissaði sjúkraliði sem var að setja ver á litla sæng, sem varð til þess að ég spurði geðvonskulega,
“Þarf hún að vera hérna?”
Sjúkraliðinn hvarf á braut en inn kom fæðingarlæknir mér til mikillar armæðu.
“ Er ekki allt í góðu hér” spurði hann Jóhönnu ljósmóður sem svaraði með mikilli jákvæðni að ég væri dugnaðarforkur og allt gengi að óskum enn sem komið væri. Var ég að vonast eftir að kallinn myndi þá þakka fyrir sig og kveðja en hann kom sér hinsvegar vel fyrir í stofunni. Mikið afskaplega fór talandinn í þessum manni í taugarnar á mér! Hann talaði hratt og óskýrt, muldraði einhvern veginn ofan í bringuna á sér.
“Veistu, ég held við þurfum engan lækni hérna” sagði ég við hann og hann skildi sneiðina,
“Ætli það sé nokkur þörf á mér” tuldraði hann útí loftið, svona til að halda haus og kvaddi. Nú var Ragnar farinn að ókyrrast, sennilega hefur honum ofboðið skapvonskan í konunni hans. Og ekki bætti úr skák þegar ég snéri mér að honum eftir enn eina sársaukahrinuna.
“Af hverju getur þú ekki gert þetta?”
“Eg myndi nú alveg sjá um þetta ef ég bara gæti” svaraði hann.
“já einmitt” svaraði ég vantrúuð og með hálfgerðum fýlutón.

Loks var útvíkkun klár og allt tilbúið og eftir kortershamagang og miklar grettur datt allt í dúnalogn. Allur sársauki hvarf og í fangið fékk ég stelpuna mína. Sem horfði á mig íbyggin á svip, með þetta kolsvarta og mikla krullaða hár.
“Á hún ekki að orga” spurði eg kvíðinn þar sem amma mín hafði sagt að org nýfæddra barna bæri vott um hraust lungu og heilbrigði. Og eins og við manninn mælt rak daman upp snöggt org í sekúndubrot, lokaði svo munninum og blikkaði löngum svörtum augnhárunum eins og hún vildi segja: “ Var þetta nóg fyrir þig?” Síðan steinsofnaði hún. Dökk á brún og brá og með þetta fallega sólbrúna hörund. Eg velti því fyrir mér hvaða ljósaperu eg hefði gleypt til að framkalla þennan fallega húðlit en sennilega verður pabbi hennar að fá að eiga heiðurinn af því.

Eg var hin hressasta. Dreif mig í sturtu en þurfti snarlega að skrúfa fyrir vatnið þar sem skilaboð komu um að allt væri komið á flot í eldhúsi sjúkrahússins á hæðinni fyrir neðan. Eg var hálf eirðarlaus og alveg dúndurhress, adrenalínkikkið enn á fullu og nú vantaði mig að fá einhvern í heimsókn. Ragnar var því sendur út að finna einhvern skemmtilegan til að koma í fyrstu heimsóknina og sjá litla barnið mitt og rúmum hálftíma eftir að daman fæddist kom hún mamma mín. Það er eitthvað við mömmu og nýfædd börn. Hún virðir nýburann fyrir sér, leggur lófann á sængina og þögnin ríkir í góða stund. Það myndast svo góðir straumar útfrá henni og maður veigrar sér við að segja eitthvað og trufla hana. Mamma sat hjá mér góða stund, gaf það út að þessu barni liði vel og meira þurfti ekki að segja mér. Dagurinn rann hjá í gleði yfir þessu fallega barni mínu, Helgan mín kom í heimsókn og fékk að máta litlu systur sína og ég upplifði ríkidæmið mitt með stelpurnar mínar báðar.

Síðan eru liðin 15 ár. Júlía hefur erft skap móður sinnar og yfirbragð föður síns. Það gerir hana að eilítið hættulegri blöndu og þarf sá einstaklingur sem leggur lag sitt við hana í framtíðinni að hafa þolgæði uppá að hlaupa :)

Hann getur á móti huggað sig við það að þurfa aldrei að verða svangur!