laugardagur, júlí 26, 2008

Leikbær er besta búðin í bænum, förum þangað í einum grænum....



í svo mjög stuttan tíma vann ég í Leikbæ. Það dæmi fór að ég held á hausinn svo að búðinni minni var breytt
í

núna er hún ekki lengur til á Selfossi
Ég er sem sagt að leita mér að vinnu. Aftur. Og núbúin. Shiiiit. á 5 mánaða tímabili hef ég tæmt 2 búðir í kjarnanum og skellt í lás. Spurning með að finna sér eitthvað annað að gera en verslunargeirann:) Kannski hjá ríkinu.... og þó er Ísland ekki líka á hausnum?
Ja maður spyr sig....
Titill þessarar færslu er slagorð sem hún Helga mín söng inn á útvarpsauglýsinu fyrir jólin 2002
svo mörg voru þau orð

þriðjudagur, júlí 22, 2008

Ég hef kviðið þeirri stundu að það færi að kvarnast úr systkinahóp foreldra minna. Og ef satt skal segja þá hef ég hugsað heilmikið um það að það komi að þeirri stundu að þetta fólk yrði ekki lengur meðal okkar. Ég veit ekki hvort þetta sé heilbrigður hugsanaháttur eða ekki en málið er að við höfum verið svo ótrúlega heppinn. Ég var að tala um það við mömmu um daginn að við höfum ekki misst neinn nákominn okkur. Amma og afi voru háöldruð þegar þau fóru og bara eðlilegur gangur lífsins.

En það kom að því.

Við fórum í sumarbústað upp í Borgarfjörð ásamt mömmu og pabba og vorum búin að vera þar í klukkustund þegar síminn hrindi, systir hans pabba hafði orðið bráðkvödd aðeins sextug að aldri. Nú er ég kannski ekki að segja alveg satt þegar ég segi lífið hafa verið okkur áfallalaust. Af 10 systkinum pabba eru nú 4 farin, hin 3 létust í frumbernsku. Ég veit að hann pabbi minn hugsar oft til þeirra og annarra sem hafa verið honum samferða á lífsleiðinni en eru ekki lengur meðal okkar. Það var þungur hugurinn fyrstu dagana í Borgarfirðinum. Og því kem ég að því sem ég lagði upp með í byrjun þessarrar færslu, það sótti að mér kvíði yfir því að þurfa kannski einhvern tímann að kveðja fólk sem hefur verið mér ómissandi frá upphafi, fólk sem litar tilveru mína svo skemmtilega, fólk sem ég hef alltaf tekið sem sjálfsögðum hlut.

Það rigndi án afláts og veðrið spilaði undir þessar hugsanir sem leituðu á mig. Að lokum stytti upp, sólin kemur jú alltaf að lokum og einhvern veginn er auðveldara að hugsa jákvætt í sólskininu.

Auðbjörg var fimmtán árum yngri en hann pabbi. Hún kom oft til okkar í Vatnsholt og einu sinni man ég eftir að hafa verið hjá henni í pössun í einhverja daga í góðu yfirlæti. Auðbjörg var eftirtektarverð, hún var glæsileg og falleg kona, alltaf vel tilhöfð og í flottum fötum. Ég hef ekki hitt hana oft núna í seinni tíð sem minnir mig á það að það á að rækta það fólk sem í kringum mann er, áður en það er of seint.

Útför Auðbjargar var gerð frá gömlu kirkjunni minni í Villingaholti í gær, útförin fór fram í kyrrþey og var einstaklega falleg athöfn, ræðan hjá prestinum falleg og umgjörðin, kirkjan, garðurinn og uppstyttan í veðrinu, allt spilaði þetta saman og gerði að einni fallegri mynd. Leiðið hennar er við hliðina á leiði ömmu og afa og eflaust eiga þau góða endurfundi. Ég get alveg séð þetta fyrir mér, hvernig afi hallar sér fram til að missa ekki af neinu sem sagt er og amma alltaf með prjónana við hlið sér, með gráa síða hárið slegið og spennu til að halda því til friðs. Á móti þeim situr Auðbjörg glettin á svip.


Það er erfitt að ímynda sér systrahópinn hans pabba án Auðbjargar en kannski er engin ástæða til þess.