sunnudagur, ágúst 15, 2010

svo lengi lærir....

.... sem lifir.... eða var það öfugt??

Lífið gengur sinn vanagang hér í Odense..... eða svo gott sem.

Það er tómt vesen að flytja á milli landa. Ég tala nú ekki um þegar börn eru með í spilinu. Eftir kennitöluþjark og þref var komið að því að huga að skólagöngu fyrir herinn minn. Börnin mín eru góðu vön frá Selfossi. Og ekki auðvelt að fylla í skarð þeirra sem unnu með þeim í skólunum þar. Mér stóð ýmislegt til boða hér, fyrir þeirra hönd. Ég ákvað að sækja um fyrir systurnar í Lilleskolen í Odense. Lilleskolen er einkaskóli og því kostar það að hafa þær þar og hann er spottakort í burtu. Hinsvegar tekur þessi skóli börnin beint inn, ef þær hefðu farið í hverfisskóla hefðu þær þurft að byrja í svokölluðum norðurlandabekk í einhverja mánuði og svo hefðu þær farið í skólann sinn, kannski í janúar, febrúar. Mér fannst af tvennu illu það verri kostur og meira hringl fyrir stelpurnar mínar og ákvað að dempa þeim beint í djúpu laugina.


Lilleskolen var stofnaður í gömlum leikskóla í Tommerup 1974, af hópi vinstrisinnaðs fólks sem vildu eitthvað annað fyrir börnin sín en það sem var ríkjandi í skólakerfinu á þeim tíma. Þetta fólk vildi að börnin fengju að upplifa heiminn eins og hann væri, börnin fengju að vera börn, fyrst og fremst. Áhersla var lögð á sköpunargleðina og leikinn. Í hópi foreldra voru leikarar og tónlistarmenn og þótti þessu fólki almennt skólakerfi of stíft og til þess fallið að innprenta börnunum efnishyggju og jafnvel brjóta niður þeirra eigið frumkvæði.
Skólakerfi í Danmörku hefur breyst síðan þetta var, skólarnir eru orðnir miklu betri og færri foreldrar sem kannski kjósa og senda börnin lengri leið í skóla en áður var.

Árið 1991 hóf Lilleskolen göngu sína í Odense, stefna skólans var færð til nútímans þar sem viðhorf fólk hafði breyst í árana rás. En enn er grundvallarstefna skólans að virkja barnið sjálft og sköpunarkraft þess. Svokallað einstaklingsmiðað nám. Lilleskolen er lítill, ekki ósvipað andrúmsloft þar inni og í Vallaskóla Sandvík. Húsið sjálft er gamall bóndabær frá 1932. Það er aðeins ein bekkur í hverjum árgangi. Júlía var strax tekinn inn í sinn árgang en skólastjórinn var aðeins hugsi varðandi Katrínu. Það var fullt í hennar árgangi þannig að spurningin var sú hvort ætti að setja hana með börnum ári eldri eða yngri. Að lokum fór svo að hún lenti í 2. bekk sem samsvarar 3. bekk á Íslandi. Og hingað til hefur gengið þokkalega. Þær stöllur hafa eignast vinkonur. Katrín skilur orðið aðeins dönskuna en svarar bara á hreinni íslensku enn sem komið er. Júlía mín er aðeins föst í enskunni en vonandi kemur þetta allt saman enda miklar valkyrjur þarna á ferð og þeim er ekkert óyfirstíganlegt.
Ég hef fylgt þeim fyrstu dagana og líst afar vel það starfsfólk sem ég hef haft af að segja. Kennarinn hennar Katrínar er eldri kona, reynd í kennslu og hefur reynslu af að hafa útlend, mállaus börn í bekk. Og ekki spillir að Karítas hennar Heiðu minnar er handan hornsins og alltaf tilbúin að túlka og aðstoða þegar til þarf. Júlía er með tvo kennara, karl og konu.

Og oft er það þannig að hlutir eiga sér hliðstæðu.... skólastjórinn í Lilleskole er ekki ósvipuð í framkomu og hún Guðrún mín eyrbekkingur sem er við stjórnvöllinn í gamla skólanum hennar Katrínar og tónlistarkennarinn í Lilleskole er enginn annar en Ingi Heiðmar... tónlistarkennarinn í Sandvík... hefur að vísu aðeins yngst en þó ekki mikið. Í Lilleskole er fyrirkomulagið á tónlistarkennslunni þannig að börnin velja sér hljóðfæri til að læra á. Það getur verið allt milli himins og jarðar. Skólinn er vel útbúinn af hljóðfærum, píanó, gítar, bassi, fiðla, trommur, bongótrommur og cajun, harmonika og einhver blásturshljóðfæri svo eitthvað sé nefnt og þessi maður spilar á þetta allt. Síðan fá börnin að búa til sína eigin tónlist og fá þjálfun í að spila eftir nótum. Þau mega svo alltaf skipta um hljóðfæri en þegar þau eldast er hann búin að sjá út hvar hæfileikar hvers og eins liggja og hvetur þá viðkomandi til að halda áfram á þeirri braut. Þannig að þegar upp er staðið kemur barnið útúr skólanum með kunnáttu til að spila á eitt hljóðfæri ásamt því að hafa kynnst og prófað mörg önnur. Mér finnst þetta hreinlega snilld. Katrín valdi sér píanó til að byrja með og fer í fyrsta tímann sinn á þriðjudaginn næsta.


Ég byrja í Social og Synhedsskolen á morgun.. og Gunni líka. Upphaflega sótti ég um í sjúkraliðanám en eftir að ég kom hingað og fór að skoða þetta allt, ákvað ég að byrja á grunnnáminu sem spannar 14 mánuði og er ágætis leið til að læra dönskuna og koma mér inní breyttar aðstæður. Eftir það ætla ég svo að halda áfram og ná mér í sjúkraliðaréttindi. Mér vex þetta óttalega í augum, ég viðurkenni það nú alveg en ég er líka ofsalega glöð. Það voru svo ótal margir heima sem sögðu mér að gleyma þessu, ég kæmist aldrei inn og að danir væru búnir að draga svo saman seglin að erfitt væri fyrir íslendinga að komast í nám o.s.frv. o.s.frv. Mér tókst það samt!!! Og ég er bara gríðarlega stolt af sjálfri mér fyrir þennan áfanga sem búinn er, flutningar, skólaumsókn og hvað eina.

En drengurinn minn er eftir... hvað skal svo gera við hann? Jú, hún Heiða mín er nú alveg best. Hún herjaði það út að hann byrjar í leikskóla á morgun! En þar sem barnið þarf sína aðlögun og ég verð kannski ekki alltaf til staðar og sækja hann snemma og svoleiðis, brá ég á það ráð og flytja hingað uppáhaldsfrænkuna mína, hana Steinunni. Hún ætlar að vera mér innan handar í næstu viku og hugsa um þetta með mér. Já, það er gott að eiga góða að og allt þetta small saman föstudaginn 13. Skólagangan mín, leikskólinn hans og svo var hringt frá Íslandi. Ég á von á góðum gestum til mín í október og þvílíkt sem ég hlakka til!!!



En nú er mál að linni í bili, þetta er orðið alltof langt.

Þó þarf ég að segja ykkur frá afskaplega skemmtilegum samskiptum við danska póstburðarkonu... en það bíður þar til seinna.

Þangað til næst.......

fimmtudagur, ágúst 05, 2010

ekki er sopið kálið....

.... þó í ausuna sé látið


Það viðrar vel í Danmörku.
Og börnin mín mætt á svæðið, yndisleg að vanda. Herinn því fullmannaður og ekkert til fyrirstöðu.

Þann fyrsta virka dag eftir komu mína hingað, stormuðum við Gunnar, ásamt fríðu föruneyti uppá "Odense Kommune". Erindið var jú að skrá sig inní landið, fá kennitölu og komast inn í sjúkratryggingakerfið o.s.frv. Eftir gríðarlega langa bið og miklar spekúlasjónir kom röðin að okkur, hjá alveg hreint yndislegri konu, sem vildi allt fyrir okkur gera. Þó var ekki margt sem hún gat gert. Það vantaði nefnilega fæðingarvottorð barnanna, vegabréf barnanna sem og börnin sjálf til þess að hægt væri að koma þeim inní kerfið svo að við gætum sótt um skólagöngu fyrir þau. Og þar með var ég strand í bili. Mér fannst óþægileg tilhugsun að skrá mitt lögheimili frá lögheimili barnanna, var ekki viss hvort ég mætti það, út frá sjónarmiði forsjár og forræðis þeirra, kunni ekki lögin varðandi þetta. En þar sem ég varð að skrá mig inní landið til að halda atvinnuleysisbótunum ákvað ég að hringja til Íslands og leita álits lögfræðings. Eftir heilmikla bið fékk ég grænt ljós á þessa skráningu og þar með orðin lögleg í Danmörku. Eftir stóð að útvega fæðingarvottorð krakkana og bíða þeirra með að skrá þau.
Þetta var semsagt á þriðjudaginn fyrir verslunarmannahelgi. Daginn eftir hringdi ég heim til Íslands og náði sambandi við Þjóðskrá. Vildi panta vottorð og biðja systur mína um að taka þau en hún átti leið um höfuðborgina þann dag. En ekki gekk það.
"Þú þarft að borga þau fyrirfram, annars eru þau ekki búin til og það tekur 5 virka daga að útbúa svona vottorð"
Ég hafði ekki 5 virka daga. Þurfti að koma þessum vottorðum með Júlíu í flug en Inga mín fór og borgaði heilar 3.600,- krónur til að koma þessu af stað og hafði það í gegn að þetta yrði tilbúið í tæka tíð. Sendi svo tengdadóttur sína í fyrradag að sækja pappírana. En viti menn! Hún var aftur rukkuð fyrir þessa pappíra, sem áttu ekki að eignast tilvist nema gegn greiðslu fyrirfram! Hún borgaði því aftur og nú höfðu þessir pappírar kostað heilar 7200 kr.! Síðast þegar ég vissi ætlaði hún með báðar kvittanirnar uppá Þjóðskrá til að fá endurgreitt.
Börnin komu í gærkvöldi og með þeim þessir orkandýru pappírar... og hvað svo? Jú... fæðingarvottorð Júlíu var vitlaust. Hún er jú Ragnars dóttir á vottorðinu en faðir er skráður Björn Emil Jónsson. Ef mikla umhugsun ákváðum við Heiða að láta þetta fara svona og leiðrétta um leið og ég gæti, nýjar kennitölur yrði ég að fá fyrir krakkana þar sem skólinn byrjar næsta mánudag. Þannig að aftur var haldið á Odense Kommune. Með endalausan pappírsbunka, vegabréf og börnin 3 sem málið snérist um. Og Guð minn góður. Konan sem við lentum á var eldri en allt sem gamalt er. Ef ég má gerast svo dómhörð og vitna í Stjána frænda myndi hann hafa komist svo að orði, að þessa konu hefði hreinlega gleymst að jarða! Og byrjaði á því að biðja um vottorð um hjúskaparstöðu sem ég hafði verið svo forsjál að panta með hinum vottorðunum. En þá fyrst versnaði í því. Á pappírunum stóð að ég væri fráskilin en í kerfinu hjá þeim hafði ég sagst vera ógift! Og þetta náttúrlega gekk ekki. Þannig að nú vantaði giftingarvottorð og væntanlega skilnaðarvottorð og hvorugt var ég með. "Hvaða máli skiptir þetta eiginlega" spurði hún Heiða mín...
"jú annað hvort er konan fráskilin eða ógift!"
"Já en hvað máli skiptir þetta? Hún gifti sig á Íslandi, skildi á Íslandi, hvoru tveggja er yfirstaðið, skiptir þetta einhverju máli"
"sko í kerfinu okkar stendur að hún sé ógift sem er eins og að hún hafi aldrei gift sig."
"og?????" spurði Heiða mín þessa mjög svo háöldruðu kvensnift.
"Hún er fráskilin... ekki ógift."
Við vinkonurnar hárreyttum okkur. Fengum hana samt loks eftir mikið þref að skrá börnin með því skilyrði að vottorðið kæmi seinna. Þar með fóru hjólin að snúast ef hægt er að komast svo að orði. Konan notaði sömu tækni á lyklaborðið og fólk notaði á tímum elstu ritvéla. Og helst vildi hún að við kæmum í næstu viku að sækja kennitölurnar. En við heimtuðum að bíða og klukkutíma síðar yfirgaf fráskilda, ógifta, 3ja barna móðirin ásamt hárreyttu vinkonunni og börnunum þremur, Odense Kommune! Með danskar kennitölur barnanna í farteskinu. Ekkert lítill ágóði þar. En þar sem Júlía er ranglega feðruð þarf ég því nýtt fæðingarvottorð og þar sem einn faðirinn hefur því bæst í hópinn þarf ég því tvö giftingarvottorð og tvö skilnaðarvottorð... Nema að ég segi bara að mín hjónabönd og mínir skilnaðir komi dönsku kommúnunni hreinlega ekkert við!!!


Svo mörg voru þau orð....