föstudagur, september 29, 2006

ég skal nú bara segja ykkur það

Eins og þið sum vitið ákváðum við Bjössi að skella okkur á dansnámskeið í vetur. Mig hefur alltaf langað að læra að dansa frá því að ég var lítil stelpa í Vatnsholtinu og nú greip ég tækifærið. Við erum búin að fara í þrjá tíma og í fyrsta tímanum sáum við eldra par, svona um sjötugt, sem hafði lært dans í átján ár og þau voru alveg ótrúlega flott saman. Svona langar mig að við verðum sögðum við Bjössi við hvort annað og loforð um óteljandi danstíma í augnaráðinu. En í tímanum í kvöld rann á mig tvær grímur. Ég virðist ekki hafa þetta í mér, er alltaf aðeins á undan eða á eftir, tek of stór skef eða of lítil. Og þetta með tjúttsnúninginn var náttúrlega bara niðurlæging á hæsta mælikvarða eða eins og maðurinn minn komst að orði á leiðinni heim "maður var nánast farinn að skammast sín". Síðan er ég orðin of þung og þar af leiðandi hreyfi ég mig öðruvísi en ég gerði, eða svo hef ég heyrt. Eins og mér líður núna, komin heim og búin að hrúga mér í sófann, langar mig hreint ekki aftur í danstíma. Langar mest til að skríða útí horn og fjara þar út en þar sem ég er nú búin að borga fyrir þetta læt ég mig hafa það og það með opnum hug, sem er hreint afrek hvað mig varðar, einhvern tímann hefði ég þakkað pent fyrir og snúið mér að öðru. En þroskinn kemur með aldrinum sem og aukakílóin og þar af leiðandi gerir maður gott úr. (Nema aukakílóunum, maður á ekki að gera gott úr þeim) Umræðurnar í bílnum, á leiðinni heim, voru ekki uppá marga fiska, það get ég sagt með fullri hreinskilni. En sannleikanum er hver sárreiðastur.

Ljón í þungum þönkum, í bókstaflegri merkingu

laugardagur, september 23, 2006

hann þoldi ekki sultu en fékk sér banana..........

Eftir langa og stranga íhugun og eftir að hafa hitt íþróttaálfinn að máli var ákveðið að skella sér í berjamó. Við lögðum upp laugardaginn síðasta ásamt fríðu föruneyti (sem samanstóð af Jóhönnu og co) og héldum upp í Ingólfsfjall. Hún Katrín mín er hörð á því að það sé heimili Jólasveinanna en engan sáum við nú sveininn en þeim mun meira af berjum og nú var um að gera að brúka föturnar og tína ber tína ber, skessan er ekki heima...........! Veðrið var hið ákjósanlegasta, logn og blíða, og þetta var hin skemmtilegasta för með nesti og nýjum skóm og við komum heim með tæp 5 kíló af krækjiberjum. Þá upphófst hin mikla pæling, hvað skyldi nú gera við öll þessi ber. Húsmóðirin greip símann og reddaði sér uppskrift að krækjiberjahlaupi og svo var byrjað að sjóða og sía ber í potti. Ég var svo forsjál að hafa keypt sultuhleypi og nú var skellt í pottinn en þegar átti að sía í krukkurnar var hlaupið orðið svo þykkt að ég kom því varla í krukkurnar, hvað þá í gegnum sigtið. Daginn eftir þegar ég fór nú að kanna afraksturinn að þessari sultugerð var þetta óætt og með öllu ólystugt þannig að þessi sultugerð endaði í tómri mjólkurfernu og beint í ruslið. Má segja að húsmóðurin hafi verið frekar óhress með þetta og fyrir einhverja rælni fór ég að lesa aftan á þennan sultuhleypi og viti menn! Í staðinn fyrir að setja allan pakkann eins og ég gerði átti ég bara að setja tvær teskeiðar! Það næsta sem mann gjörir bara kíló pipar! Þetta var náttúrulega bara fyndið. Ég ákvað að snúa mér að rifsberjunum sem hann Bjössi minn var svo elskulegur að tína fyrir mig útí garði og ég fór að hringja í mann og annan eftir uppskrift af rifsberjahlaupi og rifsberjasaft. En þá lágu Danir í því. Allir áttu jú uppskrift af hlaupi en allar voru þær eitthvað undarlegar og engum bar saman með aðferðina og enginn kannaðist við að hafa nokkurn tímann búið til saft úr rifsberjum. Ég restaði á að hringja í matgæðinginn fyrir austan, ömmu hans Bjössa, og með hennar ráðum tókst mér að búa til þetta líka fína hlaup. En saftin var eftir og hún kunni engin ráð með það. Og þar sem ég átti kíló af krækiberjum í viðbót við rifsberin var þetta saftdæmi orðið hið versta mál og berin lágu undir skemmdum í ísskápnum. Var ég alvarlega að íhuga að kontakta miðil og reyna að ná tali af henni ömmu í Vatnsholti sem ól sín börn á lýsi og krækiberjasaft sem og saft úr rifsberjum sem hún taldi allra meina bót. En hún móðir mín bjargaði mér, mamma hennar var saftsnillingurinn undir Heklufjalli forðum daga og með hennar aðferðum bruggaði ég eðalmjöð úr berjunum sem fylla ísskápinn minn sem og allar sultukrukkurnar. Þetta berjastúss er búið að taka alla vikuna og húsmóðirin orðin úrvinda og sláturtíðin rétt að byrja með tilheyrandi vamba-saumaskap og mörskurði, svo ég tali nú ekki um blóðhræringum.

Ef mér tekst að birta þetta sem er allsendis óvíst, þakka ég þeim sem hlýddu

Septem-ber Ljón

sunnudagur, september 17, 2006

það er nefnilega það

að lesa sig í gegnum emailin frá Ian elskunni er hreinlega ekki fyrir hvítan mann. Ég bara skil ekkert það sem hann er að skrifa nema það eitt að hann ætlar að ættleiða 14 ára strák sem er skyldur fyrrverandi konunni hans. Naumast langlundargeðið sem núverandi konan hans hefur. Annars bíð ég bara eftir að Björninn þýði þetta fyrir mig og þá kannski skil ég þetta betur. Hitt veit ég þó að honum líður like hell þarna úti í USA og vildi hann hvergi annars staðar vera en á gamla Íslandi.

Magnaæðið heldur áfram. Mér fannst Spaugstofan taka ansi skemmtilega á þessu. Landinn getur algjörlega misst sig í einhverju svona en þegar málefni eins og virkjanir og hátt matvöru og lyfjaverð svo ég tali nú ekki um aðförina að öldurðum og örykjum er annars vegar þá sofa menn á sínu græna. Ótrúlegt alveg.

Hrafnkell er alveg á háa C-inu að hárreyta systir sína, þessa elstu og svo klappar hann saman lófunum á milli. Hann er orðinn svo mikill töffari.

Að lokum er svo ósköp lítið að frétta, Helga var að vinna í dag á Hótelinu og ég sit uppi með stíflaðan eldhúsvask og hrúgu af uppvaski sem verður að bíða betri tíma. Jú Heiða, ég er búin að skrúfa sundur draslið í ruslaskápnum, fékk allt vatnsgumsið út vaskinum framan í mig þar sem ég skrúfaði aðeins of hratt en það hafði ekkert að segja þannig að þetta verður að bíða fagmannsins eða húsbóndans.
En þar sem unglingurinn á stefnumót í tölvunni, segi ég þetta gott í bili.
Ljón með pípulagninar á tæru og uppvaskið á sálinni.

miðvikudagur, september 13, 2006

einn sit ég yfir drykkju, aftaninn vetrarlangan

í stofunni er rauður sófi með hrúgu í miðjunni
þessi hrúga er ég
ef ég hlustá Alice in chains breytist ég í hrúgu í miðjum rauðum sófa
þess vegna tekur Bjössi Alice in chains og felur hann
en ég fann hann og finn hvernig hrúgan magnast inní mér
í kvöld eru LEIKIRNIR
og ég er með kvíðahnút í maganum
vegna þess að liðið mitt er alsett gömlum prjónakellingum
ég fór út á svalir og lét regnið renna niður hálsmálið
fann hvernig haustsvalinn fékk hrollinn til að hlaupa niður bakið og oní tá
sem er notaleg tilfinning fyrir hrúguna í sófanum
köngulærnar eru búnar að yfirgefa mig
og stofan mín fyllist af litlum loðnum flugum
boðberar haustsins
í vikunni sem leið dó lítil stelpa á spítala í reykjavík
fékk hvíld frá lífi sem færði henni lítið annað en þjáningar
samúð mín er með mömmu hennar
sem má sennilega ekki eiga fleiri börn
og ég horfi á börnin mín
minn vinningur í lífinu
geri uppreisn gegn lísu litlu í hlekkjunum
og kyssi stelpuna mína sem lifir í heimi öskubusku og þyrnirósar
er á meðan er, segi ég nú bara
hún stendur fyrir framan mig með súkkulaðið út á kinn og biður um bleiku skærin
ætlar að klippa prinsessumynd handa pabba
pabba sem reynir að þrauka daginn inni í andlausu tómarúmi hinna fordæmdu
hér heima bíður hans allt sem lífið bíður uppá, fótbolti, prinsessa, lítill brosandi stubbur og hrúgan góða í sófanum

that´s all folks


Ljónið