fimmtudagur, nóvember 20, 2008

þetta eru skrýtnir tímar..............

....................Baktus bróðir!


Í morgun greip mig þessi gríðarlega löngun til að kaupa eitthvað.
Ég er nú farin að læra af reynslu og skil VISA kortin eftir heima þegar ég mæti í vinnuna
Alveg hreint með ólíkindum hvað hægt er að kaupa á netinu
Anyway, ég þræddi allar fasteignarsíður með það í huga að kaupa sumarbústað!
En hann þarf að vera ansi mörgum gáfum gæddur, heitur pottur, verönd, gróið umhverfi og helst veiðiréttur í einhverri sprænu.
Og ég fann engan slíkan þannig að ég get hætt að hugsa um það og sagt þjónustufulltrúanum að skreppa bara í kaffi.
Hvað með að kaupa bíl? Ég er lengi búin að ætla mér að kaupa mér Benz, svartan.
Nóg til af þeim.
Ég endaði á því að sníkja epli úr eldhúsinu, ókeypis.
Ég er búin að fjarlægja Alice in chains úr spilaranum og þar með er þessarri viku svartnættis og vonleysis lokið!
Ég stefni á enn eina flutningana í vor ef allt gengur bæði vel og illa, sem er soldið erfitt að útskýra.
Ég ætla í bíó um helgina og ef enginn gefur sig fram mér til samlætis þá ætla ég bara ein í bíó
Og það er ekkert sorglegt við það.
Fékk rétt í þessu hugmynd sem ég hef lengi ætlað að hrinda í framkvæmd, Denni og Ragna, í viðbragðsstöðu!

Over and out

föstudagur, nóvember 14, 2008

það er þetta með jólin

Það hefur aldrei verið eins skýrt eins og núna hvað jólin virðast vera tengd peningastöðu fólks. Nóvember er hálfnaður og enn bólar ekkert á jólaáróðri. Einstaka búðir hafa laumað jólaskrauti í gluggana þegjandi og hljóðalaust. Engar jólaauglýsingar farnar að birtast og fólk virðist einhvern veginn tækla þetta þannig að á meðan engin minnist á jólin sé hægt að ímynda sér að þau séu bara ekki á leiðinni. Og fólki kvíðir fyrir jólainnkaupum, jólagjafirnar og allt þetta vesen eins og fólk talar um. Ég sem er svo mikið jólabarn pukrast með mína tilhlökkun enda svo sem búin að kaupa allar jólagjafirnar nema 3 sem ég kaupi örugglega ekki fyrir en á síðustu stundu. En alla vega, ég hef mikið verið að hugsa til baka. Fyrstu jólin mín að heiman. Ég var ólétt af Helgu Maríu, bjó í kjallaraholu á Grettisgötunni, vann í bakaríi og Ragnar atvinnulaus. Ég var 18, rúmu ári eldri en Helga mín er í dag. Ótrúlegt. Og ég hlakkaði svo mikið til jólanna. Við áttum ekki krónu, launin mín fóru í leigu og bæturnar hans Ragnars í afborgun af skuldabréfi sem við höfðum tekið til að kaupa okkur bíl. Afgangurinn af peningunum var búinn um 10. hvers mánaðar. Við lifðum á bakaríinu, ég gat skrifað á mig mat og þannig skrimtum við þennan vetur. Ég gerði mér kannski ekki alveg grein fyrir stöðunni fyrr en það var komið að jólagjafapælingum. Og við áttum ekki pening. Ekki einu sinni fyrir mat. Þannig að það var lagt kalt mat á stöðuna og Ragnar tók af skarið og ákvað að það yrðu engar jólagjafir gefnar þessi jól. Ragnar átti soldið sem hann hafði átt sem krakki og það fékk Andri í jólagjöf, Andri eina barnið okkar þessi jól en aðrir fengu ekki neitt. Og ég man hvað mér leið samt svo vel. Desember var yndislegur, þetta árið, veðrið var svo stillt og gott og ég gat nánast alltaf labbað í vinnuna. Og ég man hvað ég var fegin að hafa ákveðið þetta með gjafirnar í staðinn fyrir að herja út yfirdrátt í bankanum til að geta haldið jól eins og ég hefði kannski viljað. Ég lærði helling á þessum tíma, jólin voru friðsöm og falleg hvað sem peningum leið. Ég hef prófað að halda VISA jól og það hefur ekki verið skemmtilegra. Núna fer ég í jólaskap, kaupi gjafir eins og ég hef efni á og stundum verð ég að stilla verðinu heilmikið í hóf en jólagleðin er alltaf eins. Þetta nefnilega snýst ekkert um hvað við getum eða getum ekki keypt, heldur hvernig við viljum að okkur líði og því getur enginn ráðið nema við sjálf. Þess vegna vil að jólin verði sett af stað eins og vant er!

fimmtudagur, nóvember 06, 2008

Ég man þá tíð.....

.......hvað allt var einfalt í gamla daga, þegar ég var lítil sko. Sem er náttla ekkert endilega í gamla daga. Ég er nefnilega ekkert svo gömul. Eða þannig........

Alla vega, tökum dæmi.
Sjónvarpsútsendingar.


Ég man eftir því þegar sjónvarpið heima hjá mér var svart/hvítt. Jamm ég er svona gömul. Þetta var eitthvað voða flott tegund, His masters voice, stórt og mikið og var með krómuðum fótum. Þetta var ágætis sjónvarp nema hvað það geisaði oft óveður og stórhríð í þessu sjónvarpi og þá var pabbi sendur upp á þak að snúa einhverri greiðu og mamma stóð við opinn gluggann í sjónvarpsherberginu og gólaði einhver vísindi upp til pabba. Þetta var í þá daga og allir ánægðir, nema kannski mamma sem hafði mörg orð um það að það mætti nú festa greiðuna betur svo myndin yrði skýrari og eitthvað en pabbi ansaði því ekki og fór reglulega uppá þak.

Svo dó sjónvarpið, allir hinir bæirnir í sveitinni komin með svokölluð litasjónvörp og ég sá sæng mína útbreidda. Orðin hundleið á að vera eini krakkinn í skólanum sem ekki gat horft á Tomma og Jenna í lit. En nei nei. Heiða frænka gaf okkur sjónvarpið sitt, því Kiddi maðurinn hennar kom heim úr einhverri siglingunni með svaka flott litasjónvarp og því var hitt orðið óþarft. Og svart/hvíta sjónvarpið hennar Heiðu var enn fornfálegra en gamla okkar, þetta var lítið og kassinn var úr einhverjum viði eða plasti og ég hafði miklar áhyggjur af því að skjárinn myndi ekki rúma alla myndina þannig að ég sæi kannski bara helminginn af því sem ætti að vera á skjánum. Þetta sjónvarp virkaði hálf illa, sá eini sem gat ræst það til lífs var Einsi bróðir og hann var ekki alltaf heima. Ég stúderaði soldið hans aðferðir við þetta tæki, tók t.d. eftir því að hann tautaði alltaf eitthvað við það eins og: “Reyndu nú að lafa í gangi út kvöldið”. Eða:” Þú ert nú meira apparatið”. Ég tók upp á því að reyna sjálf að tala sjónvarpið til þegar enginn sá og jafnvel klappa því soldið en ekkert gerðist og hálfu ári seinna dó þetta tæki líka enda var það beinlínis orðið hættulegt og eldhætta af því.
Nú voru góð ráð dýr. Við pabbi fórum á Selfoss og inn í MM búðina sem Ægir nokkur Magg rak og löbbuðum út með RISA stórt sjónvarp með tölvuskjá og snertitökkum og SKART TENGI sem engin vissi hvað var. (Ég tek það fram að hann faðir minn spurði virkilega hvort ekki væri hægt að kaupa svart/hvítt sjónvarp og manngreyið horfði á hann í forundran) Og aftur var Einsi kallaður til því manualinn var á ensku og þetta var allt voða flókið og viti menn! Tommi og Jenni birtust í lit!

Þetta voru dýrðardagar, það snjóaði stundum í þessu sjónvarpi líka en pabbi var duglegur að príla upp á þak og ég fékk það hlutverk að standa við gluggann og góla upp til hans.

Síðan er liðin heil tækniöld. Enginn prílar lengur upp á þak og sjónvörpin eru hætt að snjóa. Og ef það drepst á útsendingunni þá er EKKERT HÆGT AÐ GERA!!!

Ég nefnilega lenti í því í gær af öllum dögum. Greys í sjónvarpinu um kvöldið sem og Meistaradeild Evrópu, Arsenal og United í hörku slag. Ég er með sjónvarpið í gegnum ADSL og var að skipta um netaðila, færa mig frá Tal yfir í Vodafone. Og eitthvað gekk það brösulega. Tal sagði upp adsl línunni minni þannig að netið og sjónvarpið datt út, Vodafone hafði þar með enga línu til að tengja inná og eftir 40 mínútna bið í símanum var mér sagt að hringja í Símann! Ekki veit ég hvað þetta kom þeim við og ég endaði á því að rifta öllum mínum samningum við Vodafone sem og við Tal. Sótti um tengingu hjá Símanum sem þýðir að ég þarf að vera sjónvarpslaus og netlaus í heila 3 daga, að minnsta kosti!

Ég hélt að tæknin ætti að auðvelda okkur lífið en þetta er náttúrulega bara bull og hreinlega skaðlegt minni andlegu geðheilsu. Ég er að spá í að kaupa mér loftnet og stigann á ég, svo verður yfirvaldið bara að hendast upp á þak næst þegar snjóar.


Þökk sé þeim sem nenntu að lesa..........

þriðjudagur, nóvember 04, 2008

Þriðjudagurinn 4. nóvember 2008

Ég fór að sofa um leið og litlu krakkarnir í gærkvöldi, það var mjög ómeðvituð ákvörðun og rumskaði ég um 10 leytið, náði að bursta tennurnar og svo aftur undir sæng til að sofa meira.

Ég elska að sofa og sofna yfirleitt snemma á kvöldin.

Hins vegar hrökk ég upp rétt eftir miðnætti við að einhver hrópaði :
“PUT YOUR HANDS UP, CLEAR THE AREA!!!”
Já nei, yfirvaldið var ekki mætt undir sæng og allt virtist með kyrrum kjörum svo ég hélt mig hafa dreymt þetta og lagðist aftur til svefns.

EN ég var aftur vakin, óþyrmilega, og nú var öskrað:
“!DROP YOUR GUNS!!!”

Ég stóð upp og leit í rúm drengsins mins og viti menn, hann hafi haft með sér í svefninn Action manninn sinn, og hafði lagst oná hann og þrýsti takkanum á kallinum ofaní dýnuna.
Ég fór fram og fékk mér megrunarkex með súkkulaði!

Helgin var flott, við horfðum á slatta af dvd og eikkvað og ég saumaði pallíettusaum.

Þrátt fyrir afslöppun átti ég erfitt með að sofa, hausinn á mér hringsnérist í einhverju bulli og ætla ég að kaupa mér USB lykil og koma þessu rugli útúr hausnum á mér í eitt skipti fyrir öll. Síðan ætla ég að plata einhvern til að lesa bullið og sálgreina.
Ég óska hér með eftir sjálfboðaliða í það!

Over and out og þangað til næst

Ljónið með hausinn í hrærigraut og kanil útá!