miðvikudagur, nóvember 28, 2007

og smá meiri snjó...

Jæja gott fólk, haldiði ekki að maður sé bara að stelast til að blogga í vinnutímanum! Innan um alla jólakjólana og glimmerdressin sit ég með hausverk og kvef og blogga um allt og ekkert. Sem er nú reyndar ekki alveg satt því bloggin mín eru auðvitað heimspekileg umræða um hversdagslega hluti sett fram með snilldarrökfærslum, hnyttni og húmor....... ok ég er hætt.

Ekkert varð af fyrirhuguðu jólahlaðborðsáti í húsi vændisins, s.s Rauða húsinu (man enn eftir feita ameríkananum sem kom arkandi inn á Rauða Húsið "The Red House" og spurði í forundran "where are all the whores??)en þar sem ættmóðirin mikla Elsa Backman efndi til matarboðs í tilefni af jólunum og afmælinu sínu ákváðum við að það mætti ekki framhjá okkur fara. Og ekki sveik maturinn hjá henni blessaðri.

En að máli málanna. Þegar maður á börn, fleiri en eitt, er bókað mál og eitt kemur til með að skara fram úr hinum. Jamm Helga mín, sættu þig við það, Júlía er skörungurinn í systkinahópnum og þið hin, þið eruð svo lítil að þið hafið ekki vit á að fara í fýlu þó ég segi þetta.. Málið er einfalt. Þegar ég bjó á Grensásveginum í gamla daga, (fimmtán árum síðan) gerði ég heiðarlega tilraun fyrir jól að baka þær kökur sem hafa gert jólin mín að jólum alla mína hunds- og kattartíð. Mamma mín var hætt að baka fleiri tegundir af smákökum því ég át bara þessa einu og pabbi át það sem fyrir hann var lagt þannig að hún bakaði alltaf 6falda uppskrift og svo lá ég í stömpunum framyfir nýár. Nú, ég fékk þessa uppskrift og lagði af stað í baksturinn full sjálfstrausts þó enga ætti ég nú hrærivélina því ég átti þennan afbragðsgóða handþeytara og með hann að vopni var skellt í eina tvöfalda uppskrift. Ég ætla ekki að útlista árangurinn, segi aðeins að þessi tilraun var ekki endurtekin og hún móðir mín elskuleg hefur séð um það hingað til að ég geti haldið jól með þeim smákökum sem til þarf. Þangað til í gærkvöldi að hún Júlía mín tók sig til og bakaði kökurnar með glæsibrag! Alein og óstudd! Svei mér þá ef þær eru ekki bara betri en hjá mömmu og það má ég segja því mamma kann ekki á tölvu og því síður að hún skoði þetta blogg og þið þegið yfir því að ég hafi gefið út þessa yfirlýsingu. Svo að Helga mín, sorry en Júlía er best og þú ættir nú bara að skella á þig svuntu og læra soldið að baka af henni litlu systur þinni svona við tækifæri. Ekki þýðir að suða í mér, þegar þú ferð að halda jól, um að baka fyrir þig og ef þú ætlar að suða í Júlíu um það þá þarftu að fara í röð á eftir mér!!


Bless í Bili

Ljón í smákökuhamingjufíling!

mánudagur, nóvember 19, 2007

?



Jæja gott fólk, enn ein viðburðarrík helgi að baki. Og kemur hér smá svona yfirlit yfir hvað dreif á mína daga þessa umræddu helgi.
Ég vann frameftir á föstudaginn og kíkti svo með Bjössa á Eyrarbakkann þar sem við fengum fínar móttökur hjá Söndru og Júlíusi borara. Þar var tekin ákvörðun um að kíkja á jólahlaðborð 24. nóv n.k. Ekki slæmt það. Nú laugardagurinn var tekinn snemma og Sensí var opnuð kl. 10 stundvíslega, í búðinni var margt um manninn þann daginn og skemmtilegt hvað karlmennirnir voru duglegir að gleðja konurnar sínar án þess að eitthvert sérstakt tilefni væri til. Búðinni var snarlega lokað kl.4 og þá dreif ég mig í dressið á mettíma, svartur kjóll, skart úr Rokk og Rósum, KGB kápan kom að góðum notum í kuldanum og svo þurfti náttlega að setja upp smá andlit fyrir kvöldið og 13 cm undir hælinn. Kl. hálf fimm var ég lögð af stað í bæinn með mömmu, Ingu sys og Helgu og Gústa. Áttum bókað borð á Caruso hálf sex og maður minn, þvílíkur veitingastaður og ódýr í þokkabót. Nú, um hálf átta vorum við svo mætt í Óperuna, þar var hann Bjarni Thor að fara að syngja um kvöldið ásamt Diddú og fleirum og ég get svo svarið það að ég er ekki enn búin að ná mér. Hann frændi minn er alveg stórkostlegur söngvari verð ég að segja og ekki skemmir útlitið en hann hefur svona ekta óperusöngvara útlit, eiginlega hálf ógnvænlegur, gæti leikið alls kyns kónga og keisara, gæti líka leikið dýrið hennar Fríðu. Svipsterkur og ægilegur útlits. Og röddin hans er engu lík, dimm og sterk, soldið eins og íslensku fjöllin. En hápunktur kvöldsins var Diddú í hlutverki næturdrottningarinnar. Hvílík rödd, hvílík útgeislun. Jeminn, maður fékk gæsahúð og óskaði þess að arían tæki aldrei enda. Eftir óperuperlurnar hittum við Heiðu, mömmu hans Bjarna Thors en hún er systir hennar mömmu og hún var hæst ánægð með þetta allt saman og við kjöftuðum í kuldanum á tröppum óperunnar á meðan hún kláraði rettuna og svo var haldið heim í geðveiku roki. Sem betur fer var ekki hálka, þá hefði ég nú lent útí móa hreinlega. En sunnudagurinn var eftir og eftir að hafa mætt í messu með Gústa og Katrínu þar sem Helga mín var að syngja (verð nú aðeins að hrósa honum Gústa soldið, það eru ekki margir 16 ára strákar held ég sem nenna að mæta í messu sunnudag eftir sunnudag til að styðja elskuna sína en hann mætir með bros á vör og tekur niður hattinn) héldum við Júlía til mömmu og þar bakaði ég fyrstu smákökurnar fyrir þessi jól. Með aðstoð móður minnar og Ingu sys bakaði ég loftkökur og engiferkökur, já og vanilluhringi. Stormaði svo heim og setti upp kjötsúpu fyrir hann Bjössa minn sem ég hafði ekkert séð síðan á föstudag.
Svona eiga helgar að vera
Minni á jolin.is þar er hægt að hlusta á jólalög í tölvunni allan sólarhringinn, ha, Heiða, öll íslensku jólalögin í bland við Ora fiskibúðing úr dós!
Over and out Roger
Ljón í fullum skrúða

sunnudagur, nóvember 11, 2007

jæja gott fólk....

.... komin heim af söngvakeppni, Helga mín og Jóhanna lentu í 5. sæti og komust því áfram á Samfés. Hún var ekki sátt við árangurinn en svona er bara að taka þátt í keppni.

farin að sofa að sinni

L

Á morgun... þá er nammidagurinn og og ...

...og og koma þá líka jólin????

Ja það er von að hún litla dóttir mín sé rugluð á þessu öllu. Mamman jóðlandi jólalög í tíma og ótíma, Gáttaþefur gægist hér inn og allt það. Það streyma í póstkassann allskyns jólabæklingar, Rúmfatalagerinn, jólin eru löngu byrjuð í Ikea og nú þessi líka fína dótabúlla í Smáranum, hún sendi þennan líka flotta jólagjafabækling í gær og þær sitja núna systurnar, Katrín og Júlía og fylla út jólagjafalistann sem er á fyrstu síðu. Ég verð að viðurkenna það að ég fíla þetta alveg í botn (eins og Einsi bróðir myndi taka til orða). Ég hreint út sagt ELSKA jólin. Og mánuðina sem á undan þeim eru. Þeir eru alveg jafn mikið jólin eins og jólin sjálf, fyrir mér. En ég get skilið pirring í fólki, ein starfsstúlkan hérna í Kjarnanum setti í einhverju bjartsýniskasti jólalög í spilarann í sinni búð að fólk varð bara reitt! Það er eins og að fólk vilji fresta því eins og það getur til að fara að hugsa um jólaundirbúning og ég hef ansi sterkan grun um að nokkuð margir myndu hreinlega sleppa jólunum ef það gæti. Það er alltaf verið að tala um að börnin verði bara óþolinmóð og rugluð en ég held að þau séu nokkuð fljót að læra á þetta og ef stemmingin fyrir jólunum er skemmtileg þá líður þeim vel. Jólin snúast nefnilega um stemmingu. Þegar fólk pirrast útí kaupæðið og allan áróðurinn sem búðirnar demba yfir það þá má það ekki gleyma því að maður velur sér sjálfur sínar jólahefðir. Við ákveðum sjálf hvernig við höldum uppá jólin. Við þurfum ekki að tapa okkur í einhverju lífsgæðajólakapphlaupi. Látum okkur frekar líða vel og leyfum stressi kaupmannanna að fara inn um annað og útum hitt. Við nefnilega ráðum hvernig okkur líður og hvað við eyðum miklum peningum og jólin eru bara yndisleg þó þau séu farin að teygja sig yfir tvo, þrjá mánuði.

Að lokum, Helga mín er fara að keppa í kvöld í Söngvakeppni félagsmiðstöðva á Suðurlandi eða eitthvað svoleiðis. Fimm efstu keppendurnir fara svo áfram á Samfés. Good luck Helga og Jóhanna! Kannski tekst mér að setja lagið þeirra hérna á síðuna:)



Ljón sem villtist í predikunarstólinn hans Séra Gunnars, (þó ekki Gunnars í Krossinum!)

mánudagur, nóvember 05, 2007

hamingjan.......

... er óáþreifanlegt hugtak, notað til að lýsa hugarástandi.

Ég hef undanfarna daga verið soldið upptekin af þessu hugarástandi. Hvað er hamingja og hvað gerir okkur hamingjusöm. Og það sem meira er, hvað aftrar okkur í því að finna til hamingju. Þegar við fullorðnumst tökum við ábyrgð á okkur og okkar málum. Við viljum sjá um að eyða peningunum okkar sjálf, við viljum ráða því hvað við borðum og hvenær, hvenær við komum heim ef við búum ennþá hjá foreldrum, í hvaða fötum við erum o.s.frv. o.s.frv. Þess vegna er það alveg ótrúlegt hvað við gerum annað fólk ábyrgt fyrir okkar skorti á hamingju. Þegar við erum óhamingjusöm kennum við yfirleitt einhverjum öðrum en okkur sjálfum um það. Ég nefni dæmi:

Ég er pirruð og vansæl yfir því að hafa ekki lært eitthvað þegar ég hafði aldur og aðstæður til, það að ég hef enga framhaldsmenntun er mömmu og pabba að kenna, þau skikkuðu mig ekki til að klára stúdentinn og mér finnst þau ekki hafa hvött mig áfram á sínum tíma. Það er líka Ragnari að kenna því hann hafði engan áhuga á að ég myndi læra eitthvað. Þetta hefur sem sagt ekkert með það að gera að ég nennti ekki að læra, fannst það tímasóun og vildi miklu frekar gera eitthvað annað. Hætti í fjölbraut á miðri önn og fór að vinna, alsæl!

Stundum er ég pirruð yfir því hvað það er mikið drasl heima hjá mér, og það er vegna þess að Bjössi nennir aldrei að taka til (takið eftir sko ALDREI) nema að ég biðji hann um það, krakkarnir skilja draslið eftir útum allt og þau nenna ekki að taka til í herbergjunum sínum. Aftur hefur þetta ekkert með það að gera að fötin í stofusófanum eru nánast öll af sjálfri mér eða föt sem ég hef sett þarna og eru af litlu krílunum, jú herbergi stóru stelpnanna eru kannski í óreiðu en oft er mitt eigið herbergi alls ekkert skárra! Og ef Bjössi tekur til þegar ég bið hann um það, af hverju bið ég hann þá ekki bara um það í staðinn fyrir að pirra mig á því að hann skuli ekki lesa mínar hugsanir? Og ef stelpurnar kunna ekki að þrífa þá er það vegna þess að þeim hefur ekki verið kennt það.

Ég á aldrei pening til að eyða í eitthvað skemmtilegt og það er sko ekki mér að kenna ha! Í fyrsta lagi er ég á alltof litlu tímakaupi, síðan er til fólk sem skuldar mér peninga, svo er Bjössi alltaf að eyða einhverju í eitthvað rugl bara. Enn og aftur kemur það ekkert málinu við að ég kann ekki með peninga að fara, skulda fullt af vitleysu og það sem fólk skuldar mér (sem er nú ekkert til að tala um svo ég taki það nú fram) er bara pínulítill dropi í hafið og myndi ekki breyta mínum fjárhag hið minnsta að fá það til baka. Síðan er ég ekki með neina menntun og get því ekki gert einhverjar svaka launakröfur. Svo eyðir Bjössi aldrei neinu í vitleysu, það er yfirleitt ég sem sé um það. Hins vegar finnst mér að hann ætti nú að telja mig af því að vera að kaupa hitt og þetta. Meira að segja þegar ég er búin að kaupa það!

Hamingjan er eitthvað sem býr innra með okkur og kannski snýst það líka um að taka ákvörðun um að vera hamingjusöm og taka ábyrgð á eigin gjörðum og ákvörðunum. Það er jú alltaf við sjálf sem segjum hlutina á endanum eða gerum þá. Það er ekki eitthvað annað fólk, foreldrar eða aðrir sem láta okkur líða eins og við líðum. Og það er alveg hreint magnað hvernig fullorðið fólk, jafnvel komið að fimmtugu er enn að væla yfir því hvað mamma og pabbi vanræktu það þegar það var lítið eða jafnvel finnst þessu fullorðna fólki það enn vanrækt af foreldrum sínum! Þetta er svona álíka og vera með fjármálin sín í tómu tjóni og væla svo yfir því að vera með lélegan þjónustufulltrúa í bankanum.

Í dag er ég ótrúlega hamingjusöm og ef eitthvað angrar mig þá tek ég á því og ber mína ábyrgð. Hvort ég verð enn svona klár á morgun veit ég ekki , ég tek bara einn dag í einu eins og rónarnir gera.

Batnandi manni er best að lifa!

Ljón í vígahug