fimmtudagur, janúar 31, 2008

Sweet sixteen..................!

Þetta er hún dóttir mín, 16 ára skvísan. Við hliðina á henni finnst mér ég gömul..
Til hamingju með afmælið elskan:)

Sætustu systur í heimi og bestu vinkonur:)




Helga og Jóhanna alveg hreint syngjandi glaðar!


Alltaf svo fín

fimmtudagur, janúar 24, 2008

Hrikalega langt blogg og erfitt yfirferðar....

ohhh ég er svo brjáluð að ég verð að gargaaaaa!!!!
Eins og svo margir vita þá er hann pabbi minn orðinn mikill sjúklingur, hann er með parkinsonveiki og hjartasjúklingur og svo er margt annað sem hrjáir hann sem tengist þessu tvennu.
En allavega, nú er málin þannig að heilsunni hefur hrakað ansi hratt og hann á orðið erfitt með að athafna sig hjálparlaust, sérstaklega á næturnar og á morgnana þar sem mátturinn í fótunum er sama og enginn og ég afréð það loks í samráði við mömmu og mín systkini og heimilislækninn hans pabba að impra á, hvort ekki væri kominn tími til að sækja um pláss á hjúkrunarheimili. Ekki það að okkur finnist sá tími kominn að hann þurfi þess í dag en mér fannst það betra að hann ætti umsókn þar sem biðlisti er langur, sérstaklega ef hann er með einhvern ákveðinn stað í huga.
Og það vill svo heppilega til að þar sem þau búa í nýju blokkinni í Grænumörk, (svona kommúna aldraðra fyrir þá sem ekki vita) þá er verið að taka í notkun nýtt hjúkrunarheimili með öllum þeim þægindum sem eiga að vera fyrir aldraða.
Og pabba fannst þetta brilliant, eins og mér var nú búið að kvíða fyrir að impra á þessu við hann. Hann sá þetta náttla alveg fyrir sér, gatan myndi aðskilja hann og mömmu yfir blánóttina en svo gæti hún trítlað yfir til hans á daginn eða hann til hennar þegar hann treysti sér til, svo gæt þau horft yfir til hvors annars í gegnum gluggana. Því það sem olli honum og mömmu hvað mestum áhyggjum var að þau þyrftu að vera aðskilin síðustu árin sín og gætu kannski litlum sem engum samvistum eytt.
Nú tók við heljarinnar ferli. Ég fyllti út umsókn, tíundaði í smáatriðum allt sem pabbi þarf aðstoð við, bæði frá okkur mömmu og systkinunum og frá heilsugæslunni og svo kom hjúkrunarfræðingur og fór í gegnum það sama og þetta ferli tók tæpa viku í vinnslu og fimmtudaginn síðasta, fyrir akkúrat viku síðan, var umsóknin klár. Mér var létt og pabba vissulega og mömmu.
Leið nú helgin, á þriðjudag er svo hringt, þá var það umræddur hjúkrunarfræðingur, sá sem hafði fyrir helgi heimsótt þau, og hann hafði fréttir að færa. Hann hafði sko verið á fundi með heilbrigðisráðherra þar sem farið var yfir breytingar á ferli hjúkrunarheimilanna og nú er ekki hægt að eiga svona umsókn inni á biðlista til seinni tíma. Umsókninni hans pabba verður sem sé hent!
Og hvað gerist þá, þegar að því kemur að hann sækir um og þarf að komast inná stofnun spurði ég. Jú þá verður fundið út hvar sé laust og þangað fer hann sem plássið er! Sem sé á Stokkseyri eða Hveragerði eða jafnvel Kirkjubæjarklaustur sem ku vera sérlega góður staður fyrir parkinsonsjúklinga!
Staðan hans pabba er verri en áður því nú VEIT hann að þetta er allt ótryggt og allt til einskis unnið og allsendis óvíst að þau mamma geti verið saman eins og þau hafa verið í rúm 50 ár. Meira að segja minni líkur á því heldur en hitt.
Og nú veit ég ekki hvað skal gera. En það er alveg klárt að þetta get ég ekki sætt mig við, parkinsonsjúkdómur er álagstengdur að vissu leyti. Öll óvissa og kvíði legst sérstaklega illa í pabba og hjúkkan sagði að við sem að honum stæðu yrðum að vera jákvæð og peppa hann upp svo hann færi nú ekki að hafa áhyggjur af þessu. Ég var með ælupest, og skildi þetta ekki en er búin að ná þessu núna. Hvurslags andskotans þjóðfélag er þetta orðið?!
Og hvað á ég að gera? Á ég að panta viðtal hjá Árna Matt og bjóða honum atkvæði mitt og systkinanna og pabba og mömmu? Ætli hann gæti þá tryggt honum skjól á þessum komandi erfiðu árum? Í gamla daga var þetta fyrirkomulag svona, þeir sem samböndin höfðu gátu valið sér búsetu á efri árum, hinir voru sendir eitthvert. Og þess vegna voru tekin upp biðlistakerfin, til að allir ættu sama rétt. Nú er gamla kerfið aftur komið á. Það verður pottþétt kjaftfullt útúr dyrum á þessu nýja hjúkrunarheimili næstu áratugina og fróðlegt að sjá hvernig raðað verður í þau pláss.
Ég þarf hinsvegar að fara að draga upp stríðshanskann og tileinka mér bardagaaðferðir sem notaðar voru í gamla daga, komast í samband við einhvern sem þekkir einhvern o.s.frv.

Ég verð að lokum að bæta því við að ég skammast mín fyrir þá pólitíkusa sem nú fara með völd, það liggur við að stjórnmálalega séð skammist ég mín fyrir að vera íslendingur. Reykjavíkurhistorian sannar það og ég hélt að við værum slæm hér í Árborg. Þessir pólitíkusar eru eins og leikarar í farsa eftir Dario Fo, verst er að það finnst þetta engum fyndið. Og ég er ansi hrædd um að borgarbúar séu ekki búnir að bíta úr nálinni með þennan nýja borgarstjóra.

Púfff

miðvikudagur, janúar 23, 2008

Nýjustu fréttir af stórskotaliðinu í Heimahaganum...................

Aðfaraótt þriðjudags lögðumst við mæðgur í ælupest..... alllar í einu:)

Ældum í kross og láum svo eins og skötur í allan gærdag.

Björninn var á næturvakt í rvk, komst ekki heim sökum veðurs í gærmorgun svo að hann fór heim til pabba síns og ætlaði aðeins að hinkra af sér veðrið.......

tókst ekki betur til en svo a hann byrjaði líka að æla og lagðist í rúmið hjá pabba sínum og kom ekki heim fyrr en seint í gærkvöldi......

við illan leik.

annars er svo sem ekkert að frétta

þriðjudagur, janúar 15, 2008


þó maður eigi kannski ekki að upplýsa Pétur og Pál um svefnvenjur sínar er ég að spá í að brjóta þá reglu í þetta skiptið. Við hjónin höfum þurft að deila rúmi með litla gaurnum á heimilinu sem er nýorðinn tveggja ára. En fyrir tveimur dögum síðan bættist liðsauki í hjónarúmið en það er hinn ágæti Bubbi byggir. Drengurinn fékk hann sem sé í afmælisgjöf og dröslar honum til og frá staða, (ekki má setja Bubba í poka, sei sei nei) og nú sefur þessi huggulegi iðnaðarmaður vil hliðina á mér eða til fóta eða bara allsstaðar í mínu rúmi. Drengurinn og hann eru eins og síamstvíburar.
Ég blogga meira seinna, mér liggur svo mikið á hjarta að ég er að springa
Later

laugardagur, janúar 12, 2008

Til hamingju með afmælið Hrafnkell






Þessi elska er 2 ára í dag, bara sætur og skemmtilegur strákur
þessar myndir eru teknar í sumar þannig að hann er hálfu ári eldri og með aðeins meira hár:)



fimmtudagur, janúar 03, 2008

Mikið skelfing sem.........

............mér leiðist janúar. Janúar er hreinlega leiðinlegasti mánuður ever, eina skíman í þessum mánuði eru afmæli barnanna minna, sú elsta og sá yngsti. Jamm ég byrjaði ballið í janúar og endaði það líka því Björninn minn segir EKKI FLEIRI BÖRN! Við eigum nú eftir að sjá til með það vinurinn! Hins vegar er ég byrjuð að telja niður í næstu jól og mér telst svo til að það séu ca 361 dagar þangað til. Rithöfundurinn kíkti á mig í morgun, ég fékk fúlskeggjaðan lopapeysukoss beint á vangann og hann upplýsti mig um það ófremdarástand sem væri væntanlegt þar sem nú er gengið í garð svokallað hlaupár, en það ku víst vera stórhættulegt. Fornar sagnir herma, skilst mér, að búfénaður gangi af göflunum og börn og gamalmenni umhverfist hreinlega. Og ekki lýgur Rithöfundurinn. Við vorum sammála um að skaupið hafi hvorki verið fugl né fiskur, það lélegasta sem maður hefur séð lengi. En að liðnu ári. Ég leigði íbúð, missti hana og keypti mér hús. Björninn kláraði skóla og skráði sig í annan, gekk í lið með yfirvaldinu í þessum líka fína búning með flautu og alles. Ég skellti mér í einkaþjálfun sem gekk hálfbrösulega og endaði með því að einkaþjálfarinn réði mig í vinnu í búðinni sinni sem ég sit nú í. Fór í mjög afdrifaríka kaffihúsaheimsókn með Ásunni, stefndi þangað einnig öðru yfirvaldi sem okkur Bjössa er að góðu kunnur, þessi vitleysa mín varð til þess að Ása seldi húsið sitt og flutti inn á yfirvaldið núna rétt fyrir jólin! Geri aðrir betur ha! Ég aðstoðaði Helgu Maríu við að bera út Morgunblaðið um sumarið og skrifa það alfarið á þann auma miðil að ég pantaði mér Danmerkurferð fyrir mig og fjölskylduna. Nú skyldi tekið hús á Heiðunni en yfirvaldið komst ekki með svo að ég fór án lögreglufylgdar í mína aðra utanlandsreisu á ævinni. Jiii hvað var gaman... ég sá ljón og fallegan karlmann í búð í Odense, Skúli vill meina að hann sé hommi, sko búðarkallinn, ekki Skúli sjálfur vonandi...... og þó...eða..... Nú jæja Tívolí og tónleikar, lestarferðir og kaffiþamb með Heiðu er allrameina bót en Visakortið var orðið ansi þungt í veskinu þegar haldið var heim á leið og þó ekki, margur hefur séð það verra. Þrýstingurinn magnaðist svo þegar leið að jólum, brjálað að gera í vinnunni og Björninn orðinn rangeygður í skólabókunum, skólinn var lengdur til 20. des og öll prófin á sömu dögum, tvö á dag í rúma viku. Jólahlaðborð, sumarbústaðaferð, tónleikar Bó Hall í Laugardalshölllinni, allt var á fullu og hvergi slakað á en einhversstaðar brestur stíflan og við hjónin lögðumst í flensu daginn fyrir Þorlák og drengurinn með RS vírus öll jólin. Við vorum eins og sprungin blaðra yfir hátíðarnar. Ji hvað ég þoli ekki janúar. Ég ætla að fara að ráðum Rithöfundarins og telja niður í vorið og næstu jól. Þorrablótið hans Kjartans er á næsta leiti og þangað ætla ég með tengdamóður minni, Ingu sys og fleirum. Ég ætla að dansa frá mér allt vit á nýju ári og fara á öll þau fimleikamót sem Júlía mín tekur þátt í og á alla þá tónleika sem Helga kemur til með að syngja á. Þó verður sennilega ekkert sem toppar það þegar hún söng Ó Helga Nótt, fyrir troðfullri Selfosskirkju á aðventutónleikunum í desember s.l. Ég fæ enn gæsahúð þegar ég skoða upptökuna að því.

Megi nýtt ár færa okkur öllum gleði og hlátur, sólskin og villtar meyjar (nei djók)

ég kveð að hætti Rithöfundarins og segi

úti er ævintýri